Veganborgarar

Veganborgarar MMM

Þessa veganborgara er ég búin að gera ansi oft þetta sumarið og bestu meðmælin voru frá unglingnum mínum og kjötætunni miklu sem sagði þá vera betri en nautahakksborgararnir sem við grilluðum eitt skiptið í sumar.  Þessir eru líka æði í nestið og því upplagt að gera ríflegan skammt og eiga borgarana tilbúna í frystinum.  Þá er líka ekkert mál að taka út og hita aðeins upp.

Vegan – Glútenlaust – Sykurlaust

Innihald:

 • 1 rautt chilli, smáttsaxað
 • 3 hvítlauksgeirar
 • 2 dósir svartar baunir, skolaðar og vatnið látið renna af þeim
 • ½ meðalstór rauð paprika – skorinn í strimla
 • ½ meðalstór gul eða appelsínugul paprika  – skorinn í strimla
 • ¼ bolli rauðlaukur, skorinn í strimla
 • 1 lítil dós maískorn
 • 1 lítil dós tómatpúrra
 • ½ – 1 bolli tröllahafrar (fæst einnig glútenlaust) – magn fer eftir því hversu deigið er blautt
 • 1 tsk cumin
 • 1 tsk hvítlauksduft
 • ½-1 tsk salt eftir smekk
 • 1/2 – 1 tsk nýmalaður svartur pipar eftir smekk
 • Ólífuolía (ofan á bakaða grænmetið)

Aðferð:

 1. Ofninn er hitaður 180°C – setjið bökunarpappír á eina ofnplötu.Skerið laukinn og paprikuna í meðalbreiða strimla og dreifið á bökunarplötuna. Bætið við helmingnum af maískornunum.  Skvettið smá ólífuolíu yfir grænmetið.  Kryddið með salti, pipar og hvítlauksdufti.  Blandið öllu vel saman.  Bakið grænmetið í 35-40 mínútur eða þar til það er orðið mjúkt og farið að taka lit.
 2. Blandið saman rauðu chilli og hvítlauk í matvinnsluvél. Bætið því næst 1 dós af svörtum baunum og blandið vel saman.  Þá er ofnristaða grænmetinu blandað saman við baunirnar þar til áferðin er orðin kássuleg
 3. Setjið blönduna í stóra skál og bætið við 1 bolla af svörtum baunum, tómatpúrrunni og afganginum af maískorninu og kryddið með cumin og jafnvel með smá salti og pipar. Á þessu stigi er um að gera að smakka blönduna og bæta þá við salti, pipar eða jafnvel hvítlauksdufti ef þar. Hrærið saman með sleif.  Nú ætti deigið að vera frekar blautt.  Til að gera það viðráðanlegra bættið þá við tröllahöfrum þar til hægt er að móta deigið..
 4. Hitið smá ólífuolíu á pönnu við meðalhita. Formið litla klatta með matskeið og hér þurfið þið að nota hendurnar til að móta borgarana.  Skellt á heita pönnuna og steiktir í 3-4 mín á hvorri hlið.  Þeir eru frekar lausir í sér á þessu stigi þannig að gott er að nota spaða þegar þeim er snúið við.
 5. Raðið borgurunum á bökunarpappír sem settur hefur verið á ofnplötu.
 6. Borgararnir eru þá hitaðir í ofni í ca 10-15 mín við 180°C til að þeir haldist betur saman.
 7. Borið fram með t.d. fullt af grænmeti (avokadó, tómötum, agúrkum og salati), heimagerðri kashewsósu og súrdeigsbrauði.

Ef það er afgangur þá eru borgararnir mjög góðir kaldir daginn og eru þeir því upplagðir í nestið.

Einnig er hægt að frysta þá og því flott að gera slatta og eiga til að grípa í þegar lítill tími er til að græja matinn.

Njótið!

Með heilsukveðju frá Rotterdam,

Ásthildur Björns

Bakaðgrænmeti veganborgarar

Leave a Reply