Syndsamlegar súkkulaðibrownies

Syndsamleg hollustu brownie

 

Það sem skiptir grundvallarmáli til að geta búið til þessar dásamlegu góðu brownies er að fyrst þarftu að búa til þína eigin möndlumjólk. Hratið sem verður eftir þegar þú gerir mjólkina er nefnilega megin uppistaðan í þessari dásemdar köku. Hvernig geri ég möndlumjólk? Sjá hér.

Innihald:

 • 1 bolli möndluhrat (sem búið er að kreista nánast allan vökvann úr í síupoka/viskustykki)
 • 1 bolli kashewhnetur (ath. ekki setja í bleyti)
 • 2 bollar döðlur (ef þær eru þurrar getur verið gott að setja þær í smástund í vatnsbleyti)
 • 8-10 msk kakóduft lífrænt – magn fer eftir hversu mikið súkkulaðibragð þú vilt hafa það.
 • 8 msk kókosmjöl
 • 4 msk hunang lífrænt
 • ½ tsk sjávarsalt

Aðferð:

 • Kashewhneturnar eru settar í matvinnsluvél og saxaðar vel niður. Samt ekki of mikið að þær verði að dufti.
 • Bættu við döðlunum og blandaðu þeim vel saman við kashewhneturnar.
 • Bættu við öllu hinu og blandaðu vel saman þar til allt er orðið vel blandað og fallega súkkulaðibrúnt. Passaðu að stoppa matvinnsluvélina áður en deigið verður smjörkennt.
 • Hér er fínt að klæða með bökunarpappír t.d. ferkantað kökuform. Með því að klæða formið að innan er þægilegra að skera kökuna án þess að hún festist í botninn.
 • Deigið sett í formið og þjappað vel niður.
 • Kakan sett í frystinn í a.m.k. 2 klst. Kakan mun ekki frosna og verða hörð. Hún geymist best í frystinum og helst þokkalega mjúk. Best er að taka hana rétt út til að skera sér og sínum sneið og setja strax aftur í frystinn. Hún geymist alveg í nokkra daga í frystinum – þ.e.a.s. ef hún verður þá ekki kláruð fyrr

Kökuna er hægt að borða eins og hún er – en mér finnst mjög gott að setja “Truflaða súkkulaðikremið” ofan á ásamt bláberjum, jarðarberjum og jafnvel ís eða rjóma.

Njótið!

Heilsukveðja,
Ásthildur Björns

 

 

Leave a Reply