Sveitasúpan – Lovesoup of Skógar ala Birna Markús

Lovesoup

Það fjölgar í matarveislunni!   Næsti matargestur er hún Birna Markús – svo skemmtilega vill til að hún er einnig hluti að bleika genginu Team Pink og hún elskar alla liti þrátt fyrir að hún kenni sig við þann bleika.

Gefum Birnu orðið:

“Ég er með súpufetish! Mér finnst súpur alveg ótrúlega góðar og eftir að Lína vinkona sýndi mér hvernig hún útbjó eina slíka ákvað ég að æfa mig og gerði mína útfærslu sem allir í fjölskyldunni gúffa í sig, meir að segja stelpurnar mínar og þá er nú mikið sagt!”

 

Innihald:

 • 6-8 stk niðursneiddir hvítlauksgeirar (eftir smekk að sjálfsögðu)
 • 1-2 msk kókoshnetuolía (Himnesk Hollusta, má vera bragð- og lyktarlaus)
 • 1-2 msk karrý (Pottagaldrar eða Himneskt)
 • 1 msk túrmerik (Pottagaldrar eða Himneskt)
 • 1 stk niðursneiddur chilli (má sleppa – rauður eða grænn, eftir smekk og stærð)
 • 1 sæt kartafla (skera niður í smáa teninga eða þannig)
 • 1 poki af meðalstórum gulrótum (hægt að miða við 10 stykki og skera niður í svipaða bita og kartöfluna)
 • 1 haus spergilkál (skera niður smátt)
 • 1 flaska af lífrænum tómatsafa eða gulrótarsafa (Himneskt)
 • 3-4 litlar fernur af kókosmjólk (fjólubláar umbúðir – fást í Bónus)
 • 1 líter vatn
 • 2 msk grænmetiskraftur frá Himneskt
 • 1 ½ dl. rauðar linsubaunir
 • 1 tsk eða eftir smekk Maldon saltflögur
 • 1-2 tsk eða eftir smekk svartur pipar
 • Vænt búnt af ferskum kóríander – skorið í tætlur

Aðferð:

 • Hvítlauk, kókoshnetuolíu, karrý, túrmerik og chilli blandað saman í pott (Birna notaði Wok pönnuna á gaseldavélinni).
 • Sætri kartöflu, gulrótum og spergilkáli bætt útí og látið krauma í 2-3 mín.
 • Tómatsafa, kókosmjólk og vatni ásamt grænmetiskrafti bætt út í pottinn.
 • Látið ná suðu og látið bubbla á miðlungshita í um 20 mínútur.
 • Því næst  er 1 ½ dl af rauðum linsubaunum út í og fáum þarna góðan próteingjafa út í.
 • Eftir um 10 mínútur græjum við töfrasprotann til að mauka allt vel saman.
 •  Ath:  Ef þú átt ekki töfrasprota er Birna með ráð við því eða eins og hún segir sjálf:  “Það er einnig alveg hægt  að leyfa öllu að halda sér en það er líka hægt að setja súpuna í blandarann. Ég geri það reyndar aldrei sjálf – hef ekki mikla löngun til að subba heitri rauðri súpu út um allt eldhúsið hjá mér ef blandarinn fær leið á vinnunni.”
 • Ef súpan er of þykk fyrir þinn smekk þá nægir að bæta við vatni en þú vilt ekki hafa hana of þunna svo það er gott að byrja á því að setja 2 dl af soðnu vatni og taka stöðuna, endurtaka eins oft og þarf.
 • Í lokin er súpan smökkuð til – Maldon flögum, smá svörtum  pipar og ferskum kóríander bætt út. Bon apetit!

Súpan er auðvitað góð daginn eftir og frábært að smella smá kjúllaafgöngum út í.

“Á myndinni hér að ofan hef ég líka bætt spínatlaufum út í með ferska kóríandernum – elska liti.” segir Birna að lokum.


Birna Markús

Birna starfar sem sérhæfður þjálfari hjá Kine Academy ásamt því að hún er að ljúka mastersnámi í Íþróttavísindum og þjálfun við Háskólann í Reykjavík. Birna hefur lokið B.A. prófi í þroskaþjálfun, jógakennaranámi, ÍAK einkaþjálfaranámi, Master REHAB þjálfaranámskeiði og ýmsum öðrum námskeiðum sem tengjast heilsu og hreyfingu.

 

Kine Academy

Í Kine Academy er unnið eftir ansi sniðugri aðferðafræði sem gagnast hefur mörgum aðilum með verki og vandamál í líkamanum sem tengjast beinum, vöðvum og liðamótum. Algeng dæmi um vandamál eru t.d. axlir, mjóbak, mjaðmir, hné og ökklar. Við nýtum tæknina til að gera sérfræðigreiningu á hreyfimynstri og virkni vöðvanna (spennu og kraft) hjá hverjum þeim sem kemur til okkar í greiningu. Svona greining skilar upplýsingum um hvaða vöðvar eru að virka rétt og hvaða vöðvar ekki og þá nýtum við tæknina okkar ennþá meira til að finna hentugar æfingar fyrir hvern og einn til að virkja þá vöðva sem hafa ekki æskilega virkni. Með þessari aðferð getum við dregið úr vandamálinu með sérhæfðri þjálfun í kjölfar greiningar. Það er líka mikill fjársjóður fyrir fólk að fá að „sjá“ hvernig vöðvarnir virka – eitthvað sem allir ættu að upplifa!

Birna MarkúsMade with Repix (http://repix.it)
Kine Academy
Mörkinni 6, 108 Reykjavík

S: 840 7807
birna@kine.is

www.facebook.com/kineacademy
www.facebook.com/BirnaMarkusMSc

 

 

Leave a Reply