Snickers Ískaka

SnickersÍskökusneið psd MMMDásamlega ljúffeng Snickers-ískaka sem svo sannarlega leikur við bragðlaukana. Það er mjög einfalt að gera þessa köku en hún krefst smá undirbúnings því að cashew-hneturnar þarf að setja í bleyti í vatn í a.m.k. 8 klst.

Til að móta kökuna sem ekki þarf að baka og geymist í frysti notaði ég hringinn úr springforminu (þvermál hringsins eru 24 cm) og lagði hann ofan á disk sem kemst inn í frystinn. Þá er auðveldlega hægt að bera kökuna fram beint á borð og aðeins þarf að fjarlægja hringinn.

 
Innihald – botninn

 • 1 bolli Tröllahafrar (eða annað gróft haframjöl)
 • 1 bolli saxaðar döðlur (ath. ef þær eru mjög þurrar og harðar þá getur verið gott að setja þær í bleyti í sjóðandi heitt vatn í 15 mín – vatninu hellt af og sett til hliðar)

 
Innihald – kremið

 • 2 meðalstórir vel þroskaðir bananar
 • ¼ bolli kókosolía (sem hefur verið brædd)
 • 2 bollar cashewhnetur – ath sem legið hafa í bleyti í 8 klst eða lengur (flott að setja þær í bleyti yfir nótt og geyma þá inn í ísskáp – vatninu er svo hellt af hnetunum)
 • 1 ½ bolli saxaðar döðlur (sama hér ef döðlurnar eru of þurrar/harðar þá að setja þær í bleyti)
 • ¼ bolli hlynsýróp (maple syrup)
 • Fræin úr einni vanillustöng – (stöngin skorin eftir endilöngu og fræin sköfuð með teskeið og sett í blenderinn en sjálf stöngin er ekki notuð)
 • Vatn – ef þarf – ef þú hefur sett döðlurnar í bleyti þá gætirðu notað smá af því vatni
 • ¼ bolli lífrænt kakóduft

 
Innihald – skreytingin:SnickersÍskaka heil psd MMM

 • 3 msk hnetusmjör
 • ¼ bolli lífrænt kakóduft
 • ¼ bolli kakósmjör eða kókosolía
 • 2-3 msk hlynsýróp
 • Kakónibbur
 • Kókosflögur
 • Fræ úr granataepli

 
Aðferð – botninn

 1. Tröllahafrarnir settir í matvinnsluvél og malaðir þannig að úr verði hveitiáferð á höfrunum.
 2. Þá er döðlunum bætt út í og blandað vel saman þar til blandan er farin að klístrast saman. Hér gætirðu ef þér finnst blandan ekki nógu klístrug bætt við nokkrum döðlum.
 3. Blöndunni hellt á diskinn og dreift vel úr og þjappað vel niður – þarna kemur hringurinn úr springforminu sér vel til að móta kökuna og þá sérstaklega þegar kemur að kreminu.
 4. Settu botninn því næst inn í frystinn á meðan þú býrð til kremið.

 
Aðferð – kremið

 1. Byrjaðu á að setja kakóduftið til hliðar.
 2. Settu allt annað í blenderinn og blandaðu vel saman. Ef þér finnst blandan vera of þykk þá geturðu bætt við smá vatni – reyndu samt að hafa það þá sem allra minnst (til að kremið sé sem þéttast og kremað). Þú gætir einnig bætt við örlitlu af hlynsýrópi eða smá bananabita ef þú vilt komast hjá því að nota vatnið.
 3. Þetta er þá ljósa lagið af kreminu.
 4. Helltu nú um helmingnum af blöndunni í aðra skál og settu til hliðar.
 5. Bættu því næst kakóduftinu við blönduna í blendernum og blandaðu vel saman.
 6. Hér ertu þá komin með dökka lagið af kreminu.
 7. Taktu nú botninn út úr frystinum og byrjaðu á að hella ljósa laginu yfir botninn og dreifðu vel úr.
 8. Því næst hellirðu dökka laginu og dreifir vel úr.
 9. Kakan sett í frysti yfir nótt.
 10. Daginn eftir tekurðu hana út og skreytir.

 
Aðferð – Skreytingin

 1. 3 msk hnetusmjör (gott að setja í glas og hita það í heitu vatnsbaði í eldhúsvaskinum)
 2. Í aðra skál er kakóduftið, kakósmjörinu (eða kókosolíuna) og hlynsýróp blandað saman í skál og hitað í heitu vatnsbaði t.d. í eldhúsvaskinum – pískað vel saman þar til orðið að flottu fljótandi súkkulaði.
 3. Hnetusmjörinu er smurt yfir kremið á kökunni.
 4. Þá er fljótandi súkkulaðinu hellt þvers og krus yfir hnetusmjörið.
 5. Þar yfir er svo kakónibbum og kókosflögum dreift yfir.

Hér er hægt að bera kökuna strax fram eða geyma áfram í frysti í nokkra daga.

Mjög gott að taka hana svo út nokkrum mínútum áður en hún er skorin til að það sé auðveldara að skera hana.

Dásamlega góð með ferskum granatafræjum, jafnvel rjóma, vanilluís og ferskum berjum eins og t.d. jarðarberjum.

Geymist í frysti í nokkra daga.

Njótið!

Með heilsukveðju frá Rotterdam,
Ásthildur Björns

Leave a Reply