Sælgætismúslí

Granola psd MMM

 
Mig hefur lengi langað til að gera heimatilbúið múslí þar sem mér finnst voðalega gott að hafa eitthvað “crunchy” að bíta í þegar ég fæ mér t.d. chiagraut.  Þessi blanda er hrikalega góð á bragðið – svo góð að múslíið gæti jafnvel komið í stað sælgætis á góðu kvöldi.

 
Innihald:

Möndlusmjörsblandan

 • 1/3 bolli heilar möndlur með hýðinu – ath. einnig hægt að nota tilbúið möndlusmjör og nota þá sama magn þ.e. 1/3 bolli af möndlum.
 • 2 msk hlynsýróp (maple syróp)

Múslíið:

 • 1/3 bolli hlynsýróp
 • 2 msk kókospálmasykur
 • 2 tsk vanilla extract
 • ½ -1 tsk kanill
 • ½ tsk sjávarsalt
 • 2 ½ bollar grófir hafrar – t.d. tröllahafrar
 • ½ bolli saxaðar möndlur
 • 1/3 bolli heilar möndlur

 
Aðferð:

 1. Ofninn er hitaður í 180°C
 2. Möndlusmjörsblandan: Ef þú ætlar að gera möndlusmjörið frá grunni þá seturðu 1/3 bolla af möndlum í öflugan blender/matvinnsluvél og blandar þar til möndlurnar eru farnar að klumpast. Þá bætirðu 2 msk af hlynsýrópi við og blandar vel saman þar til blandan er orðin þykk og klístruð.
  Ath. Ef þú notar tilbúið möndlusmjör þá seturðu það í blender og blandar 2 msk af hlynsýrópi við möndlusmjörið.
 3. Múslíið: Möndlusmjörsblandan er sett í stóra skál. Notaðu gaffal til að hræra  hlynsýrópinu útí ásamt kókóspálmasykrinum, vanillu extractinu, kanilnum og saltinu út í blönduna.
 4. Bættu höfrunum út í blönduna og því næst söxuðu möndlunum og þá heilu möndlunum. Blandaðu öllu vel saman.
 5. Helltu blöndunni á bökunarpappír og dreifðu vel úr – forðastu að hafa blönduna of þykka. Þessi skammtur er um ein venjuleg stærð af ofnplötu.
 6. Bakaðu í um 25-30 mín eða þar til múslíið er orðið gullið að lit.
 7. Forðastu að hræra í múslíinu á meðan það bakast til að múslíið verði ekki of fíngert. Með því að sleppa því að hræra í því á meðan á bakstrinum stendur þá færðu þessa fínu “crunchy” köggla sem þú svo brýtur niður þegar múslíið hefur kólnað.
 8. Tekið út úr ofninum og látið kólna.
 9. Ef þú vilt bæta við t.d. rúsínum eða jafnvel litlum súkkulaðibitum þá er hægt að gera það hér.
 10. Múslíið er æði ofan á chiagraut, jógúrt, súrmjólk eða bara eintómt en þá er þetta líka eins og besta sælgæti.
 11. Geymist í nokkra daga í lokuðu íláti – ef það verður þá einhver afgangur.

 
Njótið!
 
Með heilsukveðju frá Rotterdam,
Ásthildur Björns

Leave a Reply