Pönnusteikt hrísgrjón með grænmeti

Fried rice MMM

Þessi einfaldi réttur hefur heldur betur slegið í gegn á mínu heimili og ég er farin að gera sífellt stærri skammta til að geta haft t.d. í hádeginu daginn eftir.  Ásóknin í þetta er slík að eldri dóttirin hefur stundum fengið sér afganginn í morgunmat – og ég, móðirin því þurft að finna mér annað í hádegismat þann daginn.

 
Innihald:

 • 2 msk macadamia-hnetuolía eða avokadó-olía (eða önnur holl olía t.d. kókosolía)
 • 3 egg
 • 5-6 vorlaukar (u.þ.b. hálfur bolli) – neðsti hlutinn fjarlægður – hvíti stilkurinn og grænu blöðin söxuð niður
 • 1 stór gulrót (u.þ.b. hálfur bolli), flysjuð og rifin niður
 • ½ – 1 bolli spergilkál – smátt skorið
 • ½ bolli frosnar grænar baunir (peas)
 • 2 bollar soðin brún hrísgrjón eða hýðishrísgrjón
 • 3 msk tamari-sósa (svipað og venjulegu sojasósa nema án glútens og yfirleitt saltminni)
 • 1 msk balsamik edik
 • 1 msk ristuð sesamolía
 • ½ -1 tsk rifið ferskt engifer
 • Maldon salt
 • Ferskur malaður svartur pipar

 
Aðferð:

 • Hitið 1 msk af olíunni á meðalhita á pönnu.
 • Pískið saman eggjunum í skál og kryddið með salti og pipar.
 • Hellið eggjunum út á pönnuna og hrærið vel í.
 • Þegar eggin eru tilbúin takið þau af pönnunni og setjið á disk til hliðar.
 • Bætið við 1 msk af olíu á heita pönnuna og bætið við vorlauknum, gulrótinni og spergilkálinu og hrærið vel saman í 3-4 mínútur eða þar til grænmetið er orðið mjúkt.
 • Bætið við frosnu grænu baununum ásamt hrísgrjónunum, tamarisósunni, balsamikinu, sesamolíunni og engiferinu og hrærið vel saman þar til baunirnar eru heitar í gegn.
 • Lækkið hitann og bætið hrærðu eggjunum saman við og látið eldast í um 5 mínútur í viðbót – þar til allt er orðið heitt í gegn.
 • Kryddið með salti og pipar ef þarf.  Athugið að  tamarisósur innihalda mismikið af salti – smakkið því til áður en þið saltið.

 
Borið fram með fersku grænmeti eins og t.d. rucolla, papriku, kirsuberjatómötum og avokadó.

Æðislega gott daginn eftir og því upplagt að gera aðeins meira og eiga í nesti eða aðra máltíð daginn eftir.

 

Njótið!

 

Leave a Reply