Pekanpæ

Pekanpæ sneið
 
Ég gerði þetta dásamlega góða glútenfría pekanpæ í tilefni þess að ég átti afmæli.  Pæ-ið gerði ég tveimur dögum áður til að það yrði örugglega búið að ná sem mestum bragðgæðum.  Við vorum aldeilis ekki svikin – þetta sló í gegn hjá öllum í fjölskyldunni og með heimagerðum bananaís, rjómaís eða rjóma er þetta fullkomið.
 
Innihald – botninn:

 • 2 bollar möndlumjöl
 • 2 msk kókosolía – brædd
 • 1 egg
 • ¼ tsk sjávarsalt

 
Innihald – fyllingin:

 • 12 medjool döðlur – látnar liggja í vatni í um 4 klst. (Þessi tegund af döðlum er frekar stór og sérlega mjúkar og bragðgóðar.  Þær eru oftast með steininum í þannig að hann þarf að fjarlægja.  Ef ekki eru til medjool-döðlur þá er hægt að nota venjulegar en þá þarf að bæta við döðlum – hægt að miða við 2 venjulegar í stað 1 medjool).
 • 2 bollar pekanhnetur
 • ¼ bolli möndlumjólk
 • 1 ½ tsk kanill
 • 2 tsk vanilla extract
 • ¼ tsk múskat
 • 2 msk kókosolía
 • ½ tsk sjávarsalt
 • Slatti af pekanhnetum settar ofan á fyllinguna til skrauts

 
Aðferð – botninn:

 • Möndlumjöl og salt blandað saman í matvinnsluvél.
 • Egginu og kókosolíunni bætt við.
 • Blandað vel saman þar til orðið að deigi.
 • Þjappað í smurt eldfast form þannig að það séu kantar.  Það eru til sérstakir pæ-diskar sem eru snilld.  Ég hef ekki enn fjárfest í slíkum disk svo ég notaði ferkantað eldfast mót sem er 23 cm x 23 cm og það hefði ekki mátt vera stærra.
 • Bakað í 180 gr. Heitum ofni í um 15 mínútur eða þar til orðið gyllt að lit.

 
Aðferð  – fyllingin:

 • Pekanhnetur og kryddunum er blandað saman í matvinnsluvél.
 • Því næst er döðlunum, kókosolíunni og mjólkinni blandað saman við.
 • Blandað vel saman og því næst sett ofan á bakaðan botninn.
 • Skreytt með pekanhnetum.
 • Sett í ísskáp og látið standa þar í a.m.k. 4 klst.  Frábært að gera 1-2 dögum áður en borið er fram – er ennþá betra þannig.
 • Geymist í ísskáp í nokkra daga – ef þetta verður þá ekki klárað fyrr ;)

 
Borið fram t.d. með heimagerðum ís, vanilluís eða rjóma.
 
Njótið!

Processed with Moldiv

Leave a Reply