Túrmerik tófúsalat með avokadó

Turmeric tófusalat með avokadó MMM

Hefurðu smakkað tófú? Ef ekki þá er um að gera að prófa en tófú hefur einmitt verið vinsælt hjá grænmetisætum. Tófú er nánast alveg bragð- og lyktarlaust, gert úr hleyptri sojamjólk og er undirstöðuþáttur í matargerð víða í Austurlöndum fjær.  Það sem er sérstakt við tófú er að það þarf að krydda það eða marinera vel til að það verður eins og best verður á kosið. Hér er því einföld uppskrift að tófú.

Innihald:

 • Tófú (stíft!) – ath. þarf ca 30 mín undirbúning
 • Lífræn jómfrúarolía
 • Rauðlaukur – smátt saxaður
 • Sveppir – smátt saxaðir
 • Tómatur – smátt saxaður
 • Spergilkál – gróft skorið
 • Tamarisósa
 • Túrmerik ca 1/8 eða ¼ úr tsk.
 • Umeboshi-edik ca. 1 msk (japanskt edik búið til úr súrum plómum). Einnig hægt að nota ½ tsk rauðvínsedik og ½ tsk tamarisósu í staðinn.
 • Nýmalaður svartur pipar
 • Sólþurrkaðir tómatar
 • Spínat
 • Rucolla
 • Avokadó – skorið í sneiðar
 • Ólífur

 
Aðferð:

 1. Byrjaðu á að pressa tófúið. Ég hef þrefalt lag af eldhúspappír á disk, tófústykkið ofan á pappírinn og ofan á tófústykkið sjálft hef ég notast við stórt og mikið skurðarbretti. Brettið set ég ofan á og jafnvel eitthvað mjög þungt þar ofan á. Þá pressast aukavökvi úr tófúinu og það verður tilbúið fyrir eldamennskuna. Ég hef látið þetta pressast í um 30 mín.
 2. Hitaðu ólífuolíuna á meðalheitri pönnu.
 3. Byrjað á að léttsteikja rauðlaukinn þar til mjúkur bættu þá við sveppunum, tómatinum og spergilkálinu.
 4. Rífðu/skerðu niður tófústykkið og settu út á pönnuna.
 5. Kryddaðu lítillega með túrmerik og skvettu smá tamarisósu yfir.
 6. Bættu við umeboshi-ediki og hrærðu öllu vel saman.
 7. Kryddaðu með svörtum pipar.
 8. Rucolla og spínat sett á disk.
 9. Tófublöndunni hellt yfir og skreytt með avokadó og ólífum.

Njótið!

Með heilsukveðju frá Rotterdam,
Ásthildur Björns

 

 

 

Blómkáls- og rósakálssalat

Blómkáls og hvítlaukssalat MMM

Þegar ég var barn þá fannst mér rósakál (brussel sprouts) í einu orði sagt “viðbjóður.” Sem betur fer breytast og þroskast bragðlaukarnir og í dag finnst mér þetta ofurholla grænmeti æðislega gott.  Langbest finnst mér ef ég kemst í það þegar það er ferskt en ef ekki þá er vel hægt að nota frosið rósakál.   Mér finnst mjög gott að snöggsjóða rósakálið og skutla því svo á heita pönnuna og krydda með tamarisósu, sesamolíu og nýmöluðum svörtum pipar.

Innihald:

 • Rósakál (brussel sprouts)
 • Lífræn jómfrúarólífuolía
 • Hvítlaukur – smáttsaxaður
 • Vorlaukur – smáttsaxaður
 • Blómkál – skorið í litla bita
 • Rauð paprika – smátt skorin
 • Tamarisósa
 • Sesamolía
 • Salt & pipar
 • Rucolla
 • Agúrka – skorin í sneiðar
 • Parmesan – ferskur ef þú átt

 
Aðferð:

 1. Byrjaðu á að skella rósakálinu í sjóðandi heitt vatn og láttu sjóða í ca 4-6 mínútur eða þar til farið að linast – þú vilt nefnilega ekki sjóða kálið of lengi því svo er það steikt.
 2. Hitaðu ólífuolíu á pönnu á rétt yfir meðalhita.
 3. Byrjaðu á að snöggsteikja hvítlaukinn og vorlaukinn í um 1 mín.
 4. Bættu þá blómkálinu, paprikunni og soðna rósakálinu við á pönnuna og skvettu smá tamarisósu og sesamolíu.
 5. Kryddaðu með salti & pipar.
 6. Rucolla sett á disk – blöndunni hellt yfir og skreytt með ferskri agúrku og rifnum ferskum parmesan.

Njótið!

Með heilsukveðju frá Rotterdam,
Ásthildur Björns

 

 

Kínóasalat með túrmerik & radísum

Kínóasalat með turmeric og radísum MMM

Kínóa (quinoa) er mjög næringarríkt glútenlaust korn sem telst vera fræ. Það er prótein- og trefjaríkt ásamt því að innihalda góðar fitusýrur og önnur góð steinefni. Kínóa er frábært sem meðlæti t.d. í staðinn fyrir hrísgrjón og kartöflur og auðveldlega er hægt að gera dásamlega góð salöt úr þessum litlu kornum og gera þá flottan aðalrétt. Bragðið er frekar hlutlaust með smávegis hnetulíkan keim. Mjög mikilvægt er að skola kínóa fyrir suðu til að losna við beiska ramma bragðið sem annars verður en það er vegna þess að utan á kornunum er náttúrulegt efni sem heitir sapponin. Gott er að nota fínt sigti og skola kornin undir rennandi köldu vatni. Það er mjög einfalt að sjóða kínóa og hlutfallið er svipað og þegar þú sýður hrísgrjón eða 1 dl kínóa á móti 2 dl af vatni. Suðutíminn er ca 10-15 mín en best er að fylgjast vel með og um leið og vatnið er nánast gufað upp á botninum að þá er slökkt undir og lokið sett yfir. Fínt að láta standa í smástund. Mér finnst gott að láta smá tamari-sósu út í suðuvatnið til að fá smá aukabragð af kínóa-inu.

Mjög gott er að sjóða ríflega af kínóa því það geymist í nokkra daga í lokuðu íláti í ísskápnum. Þægilegt að geta gripið í til að nota út á salöt, sem meðlæti eða út í eggjahræruna.

 
Innihald:

 • Kínóa
 • Lífræn jómfrúarólífuolía
 • Rauð paprika – smátt skorin
 • Rauðlaukur – smátt saxaður
 • Sellerí – smátt saxað
 • Radísur – skornar í sneiðar
 • Tamarisósa
 • Sesamolía
 • Túrmerik-krydd
 • Rucolla
 • Agúrka – smátt söxuð
 • Avokadó – skorið í bita
 • Kirsuberjatómatar (ég fékk þá í 3 litum)
 • Ólífur
 • Steinselja

 
Aðferð:

 1. Byrjaðu á að sjóða kínóa ef þú átt það ekki tilbúið í ísskápnum.
 2. Hitaðu ólífuolíu á pönnu á meðalhita.
 3. Snöggsteiktu papriku, rauðlauk, radísur og sellerí þar til mjúkt.
 4. Skvettu smá tamarisósu og sesamolíu yfir.
 5. Bættu þá kínóa út í og kryddaðu með túrmerik.
 6. Settu rucolla á disk.
 7. Helltu kínóablöndunni yfir kálið.
 8. Agúrka, avokadó, kirsuberjatómatar og ólífur ásamt steinselju dreift á diskinn.

Njótið!

Með heilsukveðju frá Rotterdam,
Ásthildur Björns

Snickers Ískaka

SnickersÍskökusneið psd MMMDásamlega ljúffeng Snickers-ískaka sem svo sannarlega leikur við bragðlaukana. Það er mjög einfalt að gera þessa köku en hún krefst smá undirbúnings því að cashew-hneturnar þarf að setja í bleyti í vatn í a.m.k. 8 klst.

Til að móta kökuna sem ekki þarf að baka og geymist í frysti notaði ég hringinn úr springforminu (þvermál hringsins eru 24 cm) og lagði hann ofan á disk sem kemst inn í frystinn. Þá er auðveldlega hægt að bera kökuna fram beint á borð og aðeins þarf að fjarlægja hringinn.

 
Innihald – botninn

 • 1 bolli Tröllahafrar (eða annað gróft haframjöl)
 • 1 bolli saxaðar döðlur (ath. ef þær eru mjög þurrar og harðar þá getur verið gott að setja þær í bleyti í sjóðandi heitt vatn í 15 mín – vatninu hellt af og sett til hliðar)

 
Innihald – kremið

 • 2 meðalstórir vel þroskaðir bananar
 • ¼ bolli kókosolía (sem hefur verið brædd)
 • 2 bollar cashewhnetur – ath sem legið hafa í bleyti í 8 klst eða lengur (flott að setja þær í bleyti yfir nótt og geyma þá inn í ísskáp – vatninu er svo hellt af hnetunum)
 • 1 ½ bolli saxaðar döðlur (sama hér ef döðlurnar eru of þurrar/harðar þá að setja þær í bleyti)
 • ¼ bolli hlynsýróp (maple syrup)
 • Fræin úr einni vanillustöng – (stöngin skorin eftir endilöngu og fræin sköfuð með teskeið og sett í blenderinn en sjálf stöngin er ekki notuð)
 • Vatn – ef þarf – ef þú hefur sett döðlurnar í bleyti þá gætirðu notað smá af því vatni
 • ¼ bolli lífrænt kakóduft

 
Innihald – skreytingin:SnickersÍskaka heil psd MMM

 • 3 msk hnetusmjör
 • ¼ bolli lífrænt kakóduft
 • ¼ bolli kakósmjör eða kókosolía
 • 2-3 msk hlynsýróp
 • Kakónibbur
 • Kókosflögur
 • Fræ úr granataepli

 
Aðferð – botninn

 1. Tröllahafrarnir settir í matvinnsluvél og malaðir þannig að úr verði hveitiáferð á höfrunum.
 2. Þá er döðlunum bætt út í og blandað vel saman þar til blandan er farin að klístrast saman. Hér gætirðu ef þér finnst blandan ekki nógu klístrug bætt við nokkrum döðlum.
 3. Blöndunni hellt á diskinn og dreift vel úr og þjappað vel niður – þarna kemur hringurinn úr springforminu sér vel til að móta kökuna og þá sérstaklega þegar kemur að kreminu.
 4. Settu botninn því næst inn í frystinn á meðan þú býrð til kremið.

 
Aðferð – kremið

 1. Byrjaðu á að setja kakóduftið til hliðar.
 2. Settu allt annað í blenderinn og blandaðu vel saman. Ef þér finnst blandan vera of þykk þá geturðu bætt við smá vatni – reyndu samt að hafa það þá sem allra minnst (til að kremið sé sem þéttast og kremað). Þú gætir einnig bætt við örlitlu af hlynsýrópi eða smá bananabita ef þú vilt komast hjá því að nota vatnið.
 3. Þetta er þá ljósa lagið af kreminu.
 4. Helltu nú um helmingnum af blöndunni í aðra skál og settu til hliðar.
 5. Bættu því næst kakóduftinu við blönduna í blendernum og blandaðu vel saman.
 6. Hér ertu þá komin með dökka lagið af kreminu.
 7. Taktu nú botninn út úr frystinum og byrjaðu á að hella ljósa laginu yfir botninn og dreifðu vel úr.
 8. Því næst hellirðu dökka laginu og dreifir vel úr.
 9. Kakan sett í frysti yfir nótt.
 10. Daginn eftir tekurðu hana út og skreytir.

 
Aðferð – Skreytingin

 1. 3 msk hnetusmjör (gott að setja í glas og hita það í heitu vatnsbaði í eldhúsvaskinum)
 2. Í aðra skál er kakóduftið, kakósmjörinu (eða kókosolíuna) og hlynsýróp blandað saman í skál og hitað í heitu vatnsbaði t.d. í eldhúsvaskinum – pískað vel saman þar til orðið að flottu fljótandi súkkulaði.
 3. Hnetusmjörinu er smurt yfir kremið á kökunni.
 4. Þá er fljótandi súkkulaðinu hellt þvers og krus yfir hnetusmjörið.
 5. Þar yfir er svo kakónibbum og kókosflögum dreift yfir.

Hér er hægt að bera kökuna strax fram eða geyma áfram í frysti í nokkra daga.

Mjög gott að taka hana svo út nokkrum mínútum áður en hún er skorin til að það sé auðveldara að skera hana.

Dásamlega góð með ferskum granatafræjum, jafnvel rjóma, vanilluís og ferskum berjum eins og t.d. jarðarberjum.

Geymist í frysti í nokkra daga.

Njótið!

Með heilsukveðju frá Rotterdam,
Ásthildur Björns

Ferskt grænsalat með radísum & baunum

Ferskt grænsalat með radísum og baunum MMM

Til að fá meira prótein í fæðuna þá eru baunir afbragðs kostur.  Ég hef notast hvort sem er við baunir í dós eða keypt baunirnar þurrar (ódýrari kostur) og lagt í bleyti yfir nótt og soðið daginn eftir.  Eggin gefa einnig meira prótein í salatið – ég mæli einmitt með því að sjóða nokkur egg í einu og geyma þá afganginn í ísskápnum til að nota einmitt út á salöt eða ein og sér t.d. í millimál.

P.s. magn fer algjörlega eftir því fyrir hve marga þú ætlar að elda fyrir .  Aðalatriðið er að hafa nógu mikið af grænmeti með.  Það er nefnilega ávallt hægt að bæta grænmetisneysluna.

Innihald:

 • Rucolla eða annað grænt salat – já eða blanda af grænu salati
 • Radísur – skornar í sneiðar
 • Avokadó – skorið í teninga
 • Kirsuberjatómatar – skornir í helminga
 • Egg – harðsoðið
 • Rauðar nýrnabaunir
 • Svartar baunir
 • Cashewhnetur – þurrristaðar á pönnu
 • Alfalfa-spírur
 • Sesamfræ
 • Lífræn jómfrúarólífuolía
 • Sesamolía

 
Aðferð:

 1. Ef þú átt ekki til í ísskápnum harðsoðin egg þá er málið að skella í pott og sjóða.
 2. Græna salatinu dreift á disk.
 3. Öllu dreift yfir og smá ólífu- & sesamolíu hellt yfir.

Njótið!

Með heilsukveðju frá Rotterdam,

Ásthildur Björns

 

Eggjahrærusalat með sveppum & hvítlauk

Eggjakaka með sveppum sem vill vera salat MMM

Ef þú átt egg í ísskápnum þá kemstu ansi langt í matargerð og þá sérstaklega í matargerð sem þarf stuttan tíma.  Hér er dæmi um eggjahrærusalat sem einfalt er að gera.  Hmm.. eggjahræruSALAT – já einmitt þú last rétt – ég kalla þetta salat því að þetta inniheldur svo mikið af grænmeti en eggin gera alveg punktinn yfir i-ið í þessum rétt.

P.s. magn fer algjörlega eftir því fyrir hve marga þú ætlar að elda fyrir .  Ég hef miðað við 2 egg fyrir mig og 3 egg fyrir eiginmanninn = 5 egg og svo er bara að hafa nógu mikið af grænmeti með.  Það er nefnilega ávallt hægt að bæta grænmetisneysluna.

Innihald:

 • Kókosolía
 • Sveppir – smáttsaxaðir
 • Rauðlaukur – smáttsaxaður
 • Hvítlaukur – smáttsaxaður
 • Egg
 • Túrmeric
 • Brokkolí – gróft skorið
 • Spínat
 • Kirsuberjatómatar

Aðferð:

 1. Byrjaðu á að snöggsjóða brokkolíið – tekur ca 4-6 mín eða þar til orðið aðeins mjúkt.
 2. Kókosolían hituð á pönnu við meðalhita.
 3. Steiktu fyrst sveppina, rauðlaukinn og hvítlaukinn þar til orðið mjúkt.
 4. Skelltu eggjunum út í og kryddaðu með turmeric.
 5. Hrærðu þessu öllu vel saman þar til eggin eru tilbúin.
 6. Spínatinu dreift á disk – eggjahrærunni hellt yfir og brokkolíinu og kirsuberjatómötunum dreift í kring.

Njótið!

Með heilsukveðju frá Rotterdam,
Ásthildur Björns

 

 

 

Brokkolí & avokadósalat með eggjahræru

Brokkolí - og eggjasalat MMM

Það er alveg spurning hvort hægt sé að kalla þetta salat – en ég geri það nú samt því að það er svo mikið grænmeti í þessum rétti.  Mér finnst egg afskaplega góð og borða þau nánast daglega frá 1-3 stk á dag – ýmist í eggjahræru, sem spæld egg eða harðsoðin.  Egg eru nefnilega stútfull af hollustu og svo eru þau bara svo góð!

P.s. magn fer algjörlega eftir því fyrir hve marga þú ætlar að elda fyrir .  Ég hef miðað við 2 egg fyrir mig og 3 egg fyrir eiginmanninn = 5 egg og svo er bara að hafa nógu mikið af grænmeti með.  Það er nefnilega ávallt hægt að bæta grænmetisneysluna.

Innihald:

 • Brokkolí
 • Kókosolía
 • Egg
 • Fetaostur
 • Sveppir – smáttsaxaðir
 • Rauðlaukur – smáttsaxaður
 • Steinselja – smáttsöxuð
 • Turmeric
 • Svartur pipar
 • Sjávarsalt
 • Dijon-sinnep
 • Rucollasalat
 • Tómatar 

Aðferð:

 1. Brokkolíið er gróftskorið og sett út í sjóðandi heitt vatn í 4-8 mínútur.
 2. Kókosolían er hituð á pönnu við meðalhita.
 3. Egg, fetaosti, sveppum, rauðlauk, steinselju, kryddunum og dijon blandað saman í skál og hellt út á heita pönnuna.
 4. Hrært duglega í þar til enginn vökvi er lengur á pönnunni – tekur örfáar mínútur.
 5. Rucollasalati dreift á disk.
 6. Eggjahrærunni hellt þar yfir og öllu hinu dreift um kring.

Njótið!

Með heilsukveðju frá Rotterdam,
Ásthildur Björns

 

 

 

Ananasskyrsalat með goji & súkkulaði

Ananassalat með kakónibbum MMM

Ég elska fræin úr granataeplinu.  Kannski þá vegna þess að yfirleitt er ég búin að dunda við að plokka fræin úr eplinu í smástund og þá verða fræin svona einstaklega bragðgóð!  Nei annars þessi fræ eru fáránlega góð – hvort sem er eintóm, út á chia-grauta, grískt jógúrt eða út á salatið. Fræin má kalla ofurfæði en þau eru stútfull af næringarefnum, innihalda meira af andoxunarefnum en aðrir ávextir, þau eru mjög C-, K- & B-vítamínrík ásamt öðrum flottum næringarefnum, próteinum og trefjum.  Ef þú hefur ekki enn smakkað þá er algjörlega komin tími á að gera það sem allra fyrst.  Hér er t.d. hugmynd um hvernig þú getur notað fræin.

P.s. magn fer algjörlega eftir því fyrir hve marga þú ætlar að útbúa  fyrir.  

Innihald:

 • ½ ferskur ananas
 • Skyr að eigin vali (ég var með vanilluskyr sem ég fann hér í Hollandi – en það jafnast samt ekkert á við íslenska skyrið).
 • Mangó
 • Kiwi
 • Fræin úr ástaraldin (passionfruit)
 • Fræ úr granataepli
 • Goji-ber
 • Kakónibbur
 • Kókosflögur

 
Aðferð:

 1. Fyrst er ananasinn skorinn í tvennt.   (Ég notaði neðri partinn og geymdi þann efri).
 2. Þá er skorið innan úr ananasinum og sett til hliðar (hér er s.s. verið að gera skál úr ananasinum. Þú getur þ.v. sleppt þessum part og hreinsað ananasinn og skorið í teninga og notast þá við venjulega skál).
 3. Skyrið sett ofan í ananasinn.
 4. Mangó og kiwi hreinsað og skorið niður.
 5. Öllu dreift og raðað ofan á og um kring að vild. 

Njótið!

Með heilsukveðju frá Rotterdam,
Ásthildur Björns

 

Avokadó með kelpnúðlum og hummus

Avokadó með kelpnúðlum og hummus MMM

Þetta salat er flott að gera þegar tíminn er naumur.  Fljótlegt – einfalt og gott! Svo er um að gera að nýta það grænmeti sem til er á heimilinu og leyfa hugmyndafluginu að njóta sín.

Fyrir 1

Innihald:

 • Spínat – eða annað grænt blaðsalat
 • Kelpnúðlur
 • Ólífur
 • Kirsuberjatómatar
 • Avokadó
 • Rauð paprika
 • Sesamfræ
 • Furuhnetur
 • Hummus (það er mjög einfalt að gera sinn eiginn sjá hér –  en einnig hægt að kaupa tilbúinn)
 • Geitaostur
 • Spírur

Aðferð:

 1. Salatinu dreift á disk.
 2. Öllu raðað snyrtilega þar yfir.

Njótið!

Með heilsukveðju frá Rotterdam,
Ásthildur Björns

Sumarsalat með ferskjum & jarðarberjum

Sumarsalat með ferskjum MMM

Þetta salat er ævintýralega gott og uppskriftin birtist einmitt í Fréttablaðinu (í Fólk-hlutanum) þann 18. júní sl. Þar sem ég legg mikið upp úr því að það sem ég borða sé fallegt að þá naut ég þessa salats virkilega vel – svo fagurt var það og já ljúffengt.

Innihald:

 • Blandað grænt salat – fæst tilbúið í pokum sem innihalda þá t.d. babyleaf, romain salati, redbeat, lollo rosso, carmoli og green oakeas.
 • 1 stór tómatur – niðursneiddur
 • 2-4 saxaðir sólþurrkaðir tómatar
 • ½ rauð paprika – niðursneidd
 • 8 stk grænar ólífur
 • Alfalfa spírur – magn eftir smekk
 • Grænkáls- og smáraspírur – magn eftir smekk
 • 1 vel þroskuð ferskja skorin í sneiðar
 • 3-4 jarðarber – skorin í báta
 • 1-2 msk sólblómafræ og/eða graskersfræ
 • 2-3 tsk Lífræn jómfrúarólífuolía

Aðferð:

 1. Salatinu dreift á disk.
 2. Tómötum, papriku, ólífum, spírum og ávöxtum raðað ofan á.
 3. Sólblómafræjunum dreift yfir.
 4. Ólífuolíunni hellt yfir.

Njótið!

Með heilsukveðju frá Rotterdam,
Ásthildur Björns