Ofurhollt Túnfisksalat ala Harpa Rut

Túnfisksalat

 

Í dag er góður dagur til að búa til ofurhollt túnfisksalat!  Að þessu sinni er það ÍAK-einkaþjálfarinn og fangavörðurinn hún Harpa Rut sem var svo góð að senda mér þessa einföldu uppskrift.

Innihald:

  • 1 dós af túnfisk í vatni
  • ½  agúrka
  • ½ – 1 paprika (fer eftir stærð)
  • ½ rauðlaukur
  • 1 dós af Kotasælu
  • Salt og pipar


Aðferð:

  • Hella vatninu af túnfisknum og setja hann í skál.
  • Skera grænmetið niður og blanda saman við túnfiskinn.
  • Setja síðan kotasælu útí þannig að þetta verði aðeins blautara. Sumir vilja mikla kotasælu og aðrir minna. Allt eftir smekk.
  • Salt og pipar, líka eftir smekk.

Gott að borða þetta til dæmis með heimatilbúnu hrökkbrauði eða bara sem salat.  Einnig hefur Harpa Rut sett smá pasta eða bankabygg útí til að fá smá meiri fyllingu.

Harpa Rut

Er jákvæð og lífsglöð ung kona sem starfar sem fangavörður og einnig er hún að þjálfa í KraftBrennzlunni á Selfossi ásamt því að taka  að sér mælingar og ráðleggingar.  Þá má ég til með að mæla með Facebook síðunni hennar Heilræði og Lífsstíll þar sem hún kemur með góðar hugmyndir til að halda sér og öðrum við efnið.

Þú getur þetta – alveg eins og ég!

Gefum Hörpu Rut orðið:
„Þegar ég var unglingur þá var ég í mikilli yfirþyngd. Ég hafði engan áhuga á hreyfingu og stundaði engar íþróttir. Vandinn lá í því að ég var mjög feimin með yfirþyngd mína og fannst ég ekki geta neitt í íþróttum. Ég var alveg búin að missa von um að ég gæti komið mér í betra form.

Árið 2010 sá ég síðan ljósið fyrir alvöru! Systir mín var að lyfta á fullu og kynnti mér fyrir því sem hún var að gera. Það var ekki aftur snúið. Ég byrjaði á fullu og áhugi minn kviknaði fyrir alvöru. Ég fann að ég gat þetta, alveg eins og hinir. Hjólin fóru að snúast.  Árangurinn lét ekki á sér standa og áhuginn fyrir heilbrigðu lífi varð alltaf meiri og meiri!

Árið 2013 útskrifaðist ég sem ÍAK einkaþjálfari. Það var risasigur fyrir mig. Fyrst og fremst fór ég í þetta nám fyrir sjálfa mig til að öðlast meiri þekkingu. Fljótt sá ég samt að þetta er það sem ég vil miðla til fólks og sýna þeim sem eru búnir að missa vonina að þeir geta þetta, alveg eins og ég!“

Harpa Rut HeiðarsdóttirHarpa Rut Profil
ÍAK-einkaþjálfari

harparh@keilir.net

https://www.facebook.com/HeilraediOgLifsstill
https://www.facebook.com/Kraftbrennzlan

Leave a Reply