Mexíkó Kex

Nachos glútenfrítttt MMM
Ég elska góð hollustukex sem gott er að smyrja t.d. með avokadó eða hummus.  Hér er eitt sem gert er m.a. úr möndlum, kashewhnetur og papriku.  Æðibitakex sem gott er að maula á.
 
Innihald:

 • 1 ½ bolli möndlur & kashewhnetur (ég blandaði þessum tveimur tegundum saman þannig að úr varð einn og hálfur bolli).
 • 1 stór rauð paprika, fræhreinsuð og gróft skorin
 • 1 msk ferskur sítrónusafi (alveg í góðu lagi ef úr brúsa)
 • ½ tsk hvítlauksduft
 • ½ tsk laukduft
 • 1 tsk sjávarsalt – t.d. Maldon
 • 2 msk næringarger* (sjá hér neðst hvað næringarger er)

 
Aðferð:

 1. Byrjaðu á því að setja möndlurnar og kashewhneturnar í bleyti í 4-5 tíma – flott að setja í bleyti yfir nótt.   Sett í skál með vatni þannig að vatnið fljóti yfir.
 2. Þegar möndlurnar og hneturnar hafa legið nógu lengi í bleyti þá eru þær ásamt öllu hinu sett í blender og blandað vel saman.
  (Ath. þú þarft örugglega að stoppa blenderinn öðru hvoru til að skrapa niður úr hliðunum á honum).
 3. Blöndunni er hellt á bökunarpappír og þjappað niður með sleikju þannig að blandan fylli út í eina ofnplötu.
  Ef blandan klístrast við sleikjuna þá getur verið gott að setja sleikjuna undir rennandi vatn við og við. Það getur einnig verið gott að nota blautar hendur til að þrýsta blöndunni niður.
 4. Bakað við 170 gráður í 20 mínútur.
 5. Ofnplatan tekin út og kexið skorið með pizzaskerara eða hníf í hæfilega stærð. Sett aftur inn í ofninn.
 6. Bakað áfram í 12-18 mínútur eða þar til kexið er orðið nógu þurrt og hart (fer eftir hverjum ofni fyrir sig).
 7. Fylgstu vel með kexinu svo að það verði ekki of brúnt og brenni.

 
* Næringarger er óvirkt ger sem þýðir að það er ekki það sama og venjulegt ger og er notað í öðrum tilgangi. Næringargerið er því ekki notað til hefunar og venjulegs baksturs. Næringargerið er notað sem krydd til að bragðbæta grænmetis- og hráfæðirétti, gefur svona djúpan og góðan osta/hnetukeim. Eins og nafnið bendir til er það líka notað til að næringarbæta rétti, en gerið er mjög B-vítamínríkt og hátt hlutfall orkunnar kemur úr próteinum. Næringarger er oft B12-vítamínbætt og þess vegna nota margar strangar grænmetisætur þetta krydd sem uppsprettu B12-vítamíns.
 
Með heilsukveðju frá Niðurlöndum,

Ásthildur Björns

Leave a Reply