Kósý Karrý

Kósý karrý grænmetisréttur mmm

Ég elska að gera þennan einfalda rétt seint á haustin og yfir veturinn þegar það er farið að dimma hressilega og kólna.  Þá iljar þessi réttur kroppinn og það góða er að hann er bráðhollur.  Dásemdin við þessa uppskrift er hversu einfalt það er að gera aðeins meira af henni og nota þá afganga í nesti eða í kvöldmat daginn eftir.  Þetta er svona eins og með súpurnar þær eru oft betri daginn eftir.  Ég nota yfirleitt engar tilbúnar sósur í mína matargerð en ég geri þó eina undantekningu og það er karrý paste-ið sem ég nota í þessari uppskrift.

 
Innihald:

 • 2 msk kókosolía – pensluð yfir teningana
 • 2 msk kókosolía til steikingar
 • 3-4 bollar grasker (Red curry squash eða Butternut) – afhýtt, steinhreinsað og skorið í teninga
 • 3 msk karrý paste*
 • 1 ½ bolli ósæt möndlumjólk (fínt að búa til sína eigin – sjá hér). Ef þú átt ekki möndlumjólk þá er alveg í lagi að nota bara meira af kókosmjólkinni.
 • 1 dós kókosmjólk
 • 1 meðalstór blómkálshaus – skorin niður í hæfilega munnbita
 • Sjávarsalt & svartur pipar eftir smekk
 • ¼ – ½ bolli kókosflögur
 • ¼ – ½ bolli graskersfræ

*Ath. til eru hinar ýmsu tegundir af karrý paste – sú eina sem ég nota er frá Pataks og heitir Mild Curry – þú getur alveg eins notað aðra – passaðu þig bara á því að þær eru missterkar. Byrjaðu því með lítinn skammt og svo geturðu alltaf aukið við eftir að hafa smakkað blönduna til.

 
Aðferð:

 1. Kveikið á ofninum og stillið á 180 gráður
 2. Setjið bökunarpappír á ofnplötu og penslið pappírinn lítillega með kókosolíu.
 3. Afhýðið graskerið, fræhreinsið og skerið í teninga – sjá aðferð hér.
 4. Dreifið graskersteningum á ofnplötuna og penslið lítillega yfir þá með kókosolíu.
 5. Bakað í ofni í um 30-40 mín eða þar til graskersteningarnir eru orðnir bakaðir í gegn.
 6. Hitið kókosolíu í stórum potti á meðalhita og bætið karrý paste við og hrærið vel í 30 sek.
 7. Bætið við möndlu- og kókosmjólkinni ásamt blómkálsbitunum og látið krauma í um 10 mínútur eða þar til blómkálsbitarnir eru orðnir mjúkir.
 8. Þá er graskersbitunum bætt útí og öllu blandað vel saman á lágum hita í um 5 mínútur.
 9. Kryddið með sjávarsalti og svörtum pipar eftir smekk.
 10. Dreifið kókosflögunum og graskersfræjunum á bökunarplötu og setjið inn í 180 gr heitan ofn í 3-5 mínútur.
 11. Borið fram t.d. með kínóa eða brúnum hrísgrjónum, grænu salati, fersku rauðkáli, aspas, avokadó og svo er æði að saxa niður smá kóríander og dreifa yfir.

 
Njótið!

Heilsukveðja frá Rotterdam,
Ásthildur Björns

 

Leave a Reply