Kínóasalat með túrmerik & radísum

Kínóasalat með turmeric og radísum MMM

Kínóa (quinoa) er mjög næringarríkt glútenlaust korn sem telst vera fræ. Það er prótein- og trefjaríkt ásamt því að innihalda góðar fitusýrur og önnur góð steinefni. Kínóa er frábært sem meðlæti t.d. í staðinn fyrir hrísgrjón og kartöflur og auðveldlega er hægt að gera dásamlega góð salöt úr þessum litlu kornum og gera þá flottan aðalrétt. Bragðið er frekar hlutlaust með smávegis hnetulíkan keim. Mjög mikilvægt er að skola kínóa fyrir suðu til að losna við beiska ramma bragðið sem annars verður en það er vegna þess að utan á kornunum er náttúrulegt efni sem heitir sapponin. Gott er að nota fínt sigti og skola kornin undir rennandi köldu vatni. Það er mjög einfalt að sjóða kínóa og hlutfallið er svipað og þegar þú sýður hrísgrjón eða 1 dl kínóa á móti 2 dl af vatni. Suðutíminn er ca 10-15 mín en best er að fylgjast vel með og um leið og vatnið er nánast gufað upp á botninum að þá er slökkt undir og lokið sett yfir. Fínt að láta standa í smástund. Mér finnst gott að láta smá tamari-sósu út í suðuvatnið til að fá smá aukabragð af kínóa-inu.

Mjög gott er að sjóða ríflega af kínóa því það geymist í nokkra daga í lokuðu íláti í ísskápnum. Þægilegt að geta gripið í til að nota út á salöt, sem meðlæti eða út í eggjahræruna.

 
Innihald:

 • Kínóa
 • Lífræn jómfrúarólífuolía
 • Rauð paprika – smátt skorin
 • Rauðlaukur – smátt saxaður
 • Sellerí – smátt saxað
 • Radísur – skornar í sneiðar
 • Tamarisósa
 • Sesamolía
 • Túrmerik-krydd
 • Rucolla
 • Agúrka – smátt söxuð
 • Avokadó – skorið í bita
 • Kirsuberjatómatar (ég fékk þá í 3 litum)
 • Ólífur
 • Steinselja

 
Aðferð:

 1. Byrjaðu á að sjóða kínóa ef þú átt það ekki tilbúið í ísskápnum.
 2. Hitaðu ólífuolíu á pönnu á meðalhita.
 3. Snöggsteiktu papriku, rauðlauk, radísur og sellerí þar til mjúkt.
 4. Skvettu smá tamarisósu og sesamolíu yfir.
 5. Bættu þá kínóa út í og kryddaðu með túrmerik.
 6. Settu rucolla á disk.
 7. Helltu kínóablöndunni yfir kálið.
 8. Agúrka, avokadó, kirsuberjatómatar og ólífur ásamt steinselju dreift á diskinn.

Njótið!

Með heilsukveðju frá Rotterdam,
Ásthildur Björns

Leave a Reply