Ítalskt hvítlauksbrauð

Ítalskt glútenfrítt brauð MMM
 
Nýbakað og ilmandi hvítlauksbrauð – mmm dásamlegt með súpu eða kúrbítspasta.  Jafnvel smurt með heimagerðu pestó eða hummus.  Þetta brauð er glútenlaust og ef þú vilt getur það einnig verið án þurrgersins en olían sem pensluð er yfir það er algjörlega málið.
 
Innihald – olían:

 • 4-6 msk ólífuolía
 • ½ tsk sjávarsalt
 • ½-1 tsk bruschettu-krydd (ítölsk kryddblanda sem inniheldur m.a. papriku, hvítlaukssalt, svartan pipar)
 • 2 stór hvítlauksrif, pressuð
 • 1-2 msk ferskt basil eða timian (ef þú átt ekki ferskt þá er alveg í góðu lagi að nota þurrkað)

 
Innihald – deigið:

 • 2 bollar möndlumjöl
 • 1 bolli kjúklingabaunamjöl (getur búið til þitt eigið með því að setja þurrar kjúklingabaunir sem ekki hafa verið settar í bleyti í blender eða kaffikvörn og malið þar til orðnar að fínu dufti).
 • ½ bolli möluð hörfræ
 • 2 tsk vínsteinslyftiduft
 • ½ tsk sjávarsalt
 • 1 bolli buttermilk – einnig hægt að nota AB-mjólk (en síðast þegar ég vissi fæst buttermilk ekki á Íslandi)
 • 1 tsk þurrger – einnig hægt að sleppa
 • 4 eggjahvítur

 
Aðferð:

 1. Byrjaðu á að blanda saman innihaldi olíunnar í lítinn pott og hafðu helluna á lágum hita. Byrjaðu á að setja 4 msk af ólífuolíu og svo geturðu alltaf bætt við. Hrærðu vel í og láttu létt krauma í um 5-8 mínútur. Ath. ef þú notar ferskt basil settu það þá í pottinn þegar þú hefur tekið pottinn af heitri hellunni. Sett til hliðar. Það er einnig möguleiki á að sleppa þessu skrefi og pensla brauðið með ólífuolíu og krydda með bruschettu-kryddi. En það er bara eitthvað við hvítlaukinn sem verður svo æðislega bragðgott þegar hann hefur fengið að veltast um olíuna í nokkrar mínútur.
 2. Blandaðu vel saman í stórri skál (t.d. hrærivélaskál) öllum þurrefnunum með sleif.
 3. Í minni skál pískaðu saman buttermilk eða AB mjólk og þurrgeri þar til gerið er uppleyst. Sett til hliðar.
 4. Í annarri skál þeytirðu eggjahvíturnar með handþeytara þar til hvíturnar eru orðnar stífar.
 5. Bættu buttermilk/AB-mjólkurblöndunni við þurrefnin og blandaðu vel saman.
 6. Bættu eggjahvítunum varlega við með sleikju og blandaðu þeim við deigið með sleikjunni. Forðastu að hræra of mikið því þú vilt að hvíturnar séu lítillega freyðandi í deiginu.
 7. Settu bökunarpappír ofan í eldfast mót (ég notaði 20×20 cm).
 8. Helltu því næst deiginu ofan í mótið. Dýfðu einum fingri ofan í olíu og dippaðu aðeins ofan á deigið þannig að litlar grunnar holur myndist – gerir ákveðna stemningu í deiginu ;)
 9. Helltu þá olíunni yfir allt deigið. Olían mun safnast aðeins meira ofan í litlu fingurholurnar sem þú gerðir.
 10. Bakað við 200 gráður í um 20-25 mín eða þar til brauðið er orðið gyllt. Stingdu einnig tannstöngli í miðjuna – ef ekkert kemur á stöngulinn þá er brauðið tilbúið.
 11. Brauðið skorið í hæfilegar sneiðar.

 
Njóttu!
 
Með heilsukveðju frá Rotterdam,
Ásthildur Björns

 

Leave a Reply