Hnetusmjörskúlur

Hnetukulur mmm
Mér finnst hnetusmjör æði og borða það nær daglega.  Þessar litlu kúlur er flott að eiga í frystinum og grípa í þegar gesti ber að garði, já eða bara þig langar í.

Innihald

 • ¾ bolli gróft hnetusmjör (gott að hafa við herbergishita – þægilegra að hræra saman við hunangið)
 • ¼ bolli hunang
 • ½ bolli kókoshveiti
 • ¼ tsk sjávarsalt

Súkkulaðið:

 • 2 msk lífrænt kakóduft
 • 2 msk kókosolía
 • 1 msk hunang

Aðferð:

 • Hnetusmjörinu, hunanginu og saltinu blandað saman.
 • Kókoshveitinu er blandað saman við – byrjaðu á að setja aðeins ¼ bolla, bættu svo rólega við með teskeið þar til þetta er orðið að deigi.  Magnið sem þarf af kókoshveitinu getur verið mismunandi en það fer eftir hnetusmjörstegundum.  Sumar tegundir eru t.d. olíuríkari en aðrar.
 • Litlar kúlur mótaðar, gott að nota litla kúpta skeið, betra að hafa kúlurnar frekar litlar.
 • Þeim er svo raðað á bökunarpappír.  Ég lagði bökunarpappírinn ofan á lítið skurðarbretti sem passaði inn í frystinn.
 • Sett inn í frystinn í 30 mínútur.

Súkkulaðið blandað á meðan kúlurnar eru í frystinum.

 • Kakódufti, kókosolíu og hunangi blandað saman í skál.  Mér finnst þægilegra að eiga við þetta með því að hafa skálina ofan í eldhúsvaskinum  með heitu vatni.  Þá tekur líka enga stund að blanda þessu saman.
 • Kúlurnar teknar út úr frystinum.
 • Húðaðar með súkkulaðinu.  Ég setti hverja og eina ofan í skálina, einfalt og fljótlegt.
 • Aftur sett inn í frystinn.  Súkkulaðið harðnar á nokkrum mínútum.
 • Hér fer það eftir smekk hvort þú húðir kúlurnar með annarri umferð af súkkulaði – mér fannst þær flottari með 2 umferðum.
 • Í síðustu súkkulaðiumferðinni er fallegt að skreyta aðeins t.d. með söxuðum gojiberjum, mórberjum, kókosmjöli, kakódufti eða jafnvel chiafræjum.  Hér er málið að leyfa hugmyndafluginu að njóta sín.

Geymist í frysti og ágætt að taka kúlurnar út 10 mínútum áður en þær eru bornar fram.

Njótið!

Leave a Reply