Guðdómlegar Kanil- & Pekan Trufflur

Kanilpecantrufflur mmm

 
Eldri dóttir mín elskar það að geta fengið sér smá hollustunammimola og þá sérstaklega þegar hún var í prófunum núna í vor.  Það getur verið sérlega notalegt að eiga slíka mola í frystinum þegar þannig liggur á manni og eins þegar gesti ber að garði.  Hér er því ein tegund af einstaklega góðum nammitrufflum.

Myndin er af ljúffengum kanil- og pekan trufflum (þessar kanillituðu),  ásamt súkkulaði- og valhnetu trufflum, maca- og kakó trufflum og kókos- og súkkulaði trufflum – en hver veit nema að ég setji uppskriftirnar af þeim einnig inn á síðuna á næstunni.

 
Innihald – trufflurnar:

 • 1 bolli pekanhnetur
 • ½ bolli tröllahafrar – hægt að fá glútenfría
 • ½ -1 tsk kanill
 • hnífsoddur af sjávarsalti
 • 3 msk döðlumauk*  Sjá hér.

 
Aðferð – trufflurnar:

 1. Pekanhnetur og tröllahafrar settir í matvinnsluvél og blandað saman þar til orðið að fínu mjöli.
 2. Bættu þá við kanil og salti.
 3. Að lokum er döðlumaukinu bætt við og blandað saman þannig að blandan límist saman ef þú klemmir hana saman á milli tveggja fingra.
 4. Kúlurnar mótaðar – fínt að nota kúpta teskeið – og settar til hliðar.

 
Innihald – hjúpurinn:

 • 1 msk kókosolía, brædd
 • 1 msk maple sýróp (hlynsýróp)
 • 3 msk kókospálmasykur
 • ½-1 tsk kanill

 
Aðferð – hjúpurinn:

 1. Kókosolíu og maple sýrópi er pískað saman í lítilli skál og í aðra skál er blandað saman kókospálmasykri og kanil.
 2. Dýfið svo hverri kúlu í olíuna og því næst rúllið kúlunni uppúr kanil/kókospálmasykri.
 3. Geymt í ísskáp í a.m.k. 30 mín. Geymist í 3-5 daga í ísskáp.
 4. Einnig hægt að geyma í lengri tíma í frysti.

 
Njótið!

Bestu heilsukveðjur frá Rotterdam,
Ásthildur Björns

Leave a Reply