Glútenlausar brauðstangir

Glútenlausar brauðstangir MMM

 
Þessar brauðstangir eru frábærar t.d. með heimagerðri grænmetissúpu.  Uppskriftina sem ég breytti reyndar aðeins fékk ég úr flottu matreiðslubókinni “Wheatbelly: Cookbook.”  Brauðstangirnar geymast í kæli í 3-4 daga og svo er einnig hægt að frysta þær.


 Innihald:

 • 1 ½ bolli volgt vatn
 • 2 ½ tsk þurrger
 • 2 bollar kjúklingabaunamjöl (chickpea flour)
 • 2 bollar möndlumjöl
 • 1 bolli möluð hörfræ (hægt að setja heil hörfræ í blender í augnablik)
 • 2 tsk sjávarsalt
 • 1 tsk hvítlauksduft
 • 4 msk ósaltað brætt smjör (ekki smjörlíki heldur smjörið sem er í grænu umbúðunum frá MS)
 • 1 egg
 • 1 msk vatn
 • Rósmarín og sjávarsalt til að sáldra yfir stangirnar
 • Smávegis af ólífuolíu þegar verið er að hnoða deigið


 Aðferð:

 • Volga vatnið er sett í skál ásamt þurrgerinu.  Blandað vel saman með pískara.
 • Látið standa í um 10 mínútur.
 • Í bökunarskál er kjúklingabaunamjölinu, möndlumjölinu, hörfræjunum og sjávarsaltinu blandað saman.
 • Smjörinu bætt út í bökunarskálina og blandað vel saman – gott að nota krókinn á hrærivélinni.
 • Þurrgersblöndunni bætt út í og hrært í nokkrar mínútur eða þar til allt er vel blandað saman.  Þarf örugglega að stoppa hrærivélina annað slagið þar sem deigið fer út í hliðarnar á skálinni og því þarf að ýta því niður með sleif.
 • Setjið plastfilmu yfir skálina og geymið á hlýjum stað í um 1 klst.  Deigið mun aðeins hefast en ekkert í líkingu við deig sem inniheldur glúten. – Ég hef stundum sett heitt vatn í vaskinn og sett skálina ofan í.
 • Ofninn settur á 180 gráður.
 • Eggið og þessi eina matskeið af vatni pískað saman í skál og sett til hliðar.
 • Það er ágætt að setja smá ólífuolíu á borðið þar sem þú ætlar að hnoða deigið.  Ég hef notað bökunar”pappír” úr sílíkoni og penslað smá olíu á – þá sleppi ég við að káma út allt borðið. Einnig ágætt að setja smá olíu á hendurnar.
 • Deiginu hellt á borðið og hnoðað saman.
 • Því næst er hnoðað í rúllu og skipt niður í 8 hluta.
 • Hver hluti er svo rúllaður upp í eina rúllu sem er þá hægt að skera í tvennt.
 • Raðað á bökunarpappír og alveg í lagi að raða nokkuð þétt þar sem deigið breiðir nánast ekkert úr sér.
 • Eggjablöndunni er þá penslað yfir brauðstangirnar og svo er sjávarsaltinu og rósmarínu dreift yfir.
 • Bakað í um 25 mínútur eða þar til orðið vel gyllt og þétt viðkomu.

 

Njótið!

Leave a Reply