Einfalda bananabrauðið

Bananabrauð GF MMM

Við á heimilinu borðum talsvert mikið af ávöxtum – eiginlega frekar mikið eða um 5 kg af eplum fyrir eina viku og 3-4 kippur af bönunum svo nefndar séu einhverjar tölur.  Jú held að það sé frekar mikið.  Stundum kaupi ég fleiri kippur af bönunum bara til þess að ég nái að láta einhverja af bönunum fullþroskast því þannig vil ég hafa þá í smoothies og í bakstur.  Hér er einmitt ein einföld og þægileg bananabrauðsuppskrift sem er einnig glúten- og mjólkurlaus.

 
Innihald:

 • ¾ tsk matarsódi
 • ½ tsk sjávarsalt
 • ¾ bolli möndlumjöl
 • ¼ bolli kókoshveiti
 • ½ – 1 tsk kanill
 • 2 msk kókosolía (brædd)
 • 3 egg
 • 1 bolli stappaðir bananar (u.þ.b. 3 litlir vel þroskaðir bananar)
 • ¼ bolli lífrænt hunang

 
Aðferð:

 1. Þurrefnunum er blandað saman í hrærivélaskál.
 2. Bananarnir eru stappaðir og fínt að bæta þá eggjunum, hunanginu og olíunni saman við.
 3. Bananablöndunni er þá blandað við þurrefnin og hrært vel saman.
 4. Smyrjið bökunarform með t.d. kókosolíu að innan – en ég hef bæði notað tvö  lítil brauðform og eins eitt stórt venjulegt brauðform – báðar útgáfurnar voru alveg í lagi.
 5. Bakað við 175°C í um 40 mínútur eða þar til þú getur stungið tannstöngli ofan í og ekkert kemur á hann.
 6. Látið brauðið kólna áður en brauðið er hellt úr forminu og skorið niður.
 7. Geymist á eldhúsborðinu í nokkra daga í lokuðum umbúðum en líklegast betra að geyma það samt í ísskápnum. Svo er einnig hægt að baka fleiri og frysta.

 
Njótið!

Með heilsukveðju frá Rotterdam,
Ásthildur Björns

Leave a Reply