Chiakex

Chiafræ MMM og ps

Nú eru skólarnir byrjaðir og ég er sífellt að koma með nýjar hugmyndir að einhverju góðu fyrir dætur mínar til að taka með sér í nestið.  Það verður nefnilega að segjast að endalaust hvítt brauð með majonesi, Doritos snakk og gosdrykkir sem er í boði í mötuneytinu hjá þeim er eitthvað sem okkur mæðgum finnst ekki vera boðlegt á skólatíma.  Því var þetta einfalda og fljótlega kex búið til – bæði gott eitt og sér og með t.d. hummus eða ostsneið er það dásamlega gott.

Þessi skammtur er ein ofnplata. Mæli með því að tvöfalda uppskriftina – þetta klárast fljótt! 

Innihald:

 • 1 bolli vatn – ath. notaðu fyrst bara um ¾ bolla og sjáðu svo til.
 • ¼ bolli hörfræ – hægt að blanda saman muldum hörfræjum og heilum.
 • ¼ bolli chiafræ
 • ½ bolli sólblómafræ
 • ½ bolli graskersfræ (getur einnig notað meira af sólblómafræjunum í staðinn)
 • ½ bolli sesamfræ
 • ½ tsk Maldon salt
 • Smá Maldon salt þegar búið er að fletja blönduna út – sjá hér að neðan nr. 6

Mismunandi bragð – nokkrir valkostir:

 • ½ tsk hvítlauksduft eða 1 msk næringarger – hér er hægt að leika sér með mismunandi bragð t.d. hafa þurrkað rósmarín í staðinn fyrir hvítlauksduftið eða jafnvel timian.

Aðferð:

 1. Hitaðu ofninn í 170 gr.
 2. Blandaðu saman öllum fræjunum og þeim kryddum sem þú ætlar að nota.
 3. Bættu við ¾ af vatninu og blandaðu vel saman – alveg nóg að nota sleif.
 4. Láttu skálina standa í um 10 mínútur á borðinu svo að chiafræin og hin fræjin nái að draga í sig vatnið.
 5. Ef blandan er of þurr þá geturðu bætt við restinni af vatninu og þá jafnvel smá í viðbót ef þarf. Blandan þarf að vera rök en samt ekki þannig að það leki vatn úr henni.
 6. Settu bökunarpappír á ofnplötuna og blönduna þar ofan á. Settu þvínæst aðra örk af bökunarpappír yfir blönduna og þjappaðu blöndunni niður – hægt að nota hendurnar eða rúllukefli.  Hafðu blönduna vel jafna á plötunni og nýttu plötuna sem best. Góð þykkt á kexinu er um ca 30 mm.  Efri bökunarpappírinn fjarlægður.  Hér er ágætt að strá örlitlu Maldon salti yfir – bara nokkrar flögur.
 7. Hér er fínt að nota t.d. pizzaskera til að skera út í þá stærð sem þið viljið hafa kexið.
 8. Bakað í ofni í um 25-30 mín – tekið út og snúið við og sett aftur inn í ofn í um 25-30 mín í viðbót eða þar til kexið er orðið stökkt.  Hér fer það líka eftir ofninum sem þú ert með þannig að best er að prófa að taka út eitt kex og smakka og koma við.

P.s. er stundum spurð hvað sé mikið í þessum blessaða 1 bolla en mælingarnar eru eftirfarandi:

 • 1 bolli = 250 ml
 • 1/2 bolli = 125 ml
 • 1/4 bolli = 60 ml

Njótið!

Með heilsukveðju frá Rotterdam – Hollandi,

Ásthildur Björns

 

 

 

Leave a Reply