Bláberjaorkustangir með chiafræjum

BLÁberjastangirchia MMM-Edit as Smart Object-1

Ef þú býrð svo vel að hafa farið í berjamó – nú eða ef þú þekkir einhvern sem náði að tína heilan haug af bláberjum þá er hér hugmynd hvernig þú getur nýtt bláberin með því að þurrka þau.

Þessar bragðgóðu orkustangir eru sérlega hentug sem millimál og þau er hægt að frysta þannig að þau geymast vel.

Innihald:

 • 2 msk chiafræ
 • 6 msk vatn
 • 1 bolli möndlumjöl
 • ½ bolli kókosmjöl eða kókosflögur (ath. ekki kókoshveiti)
 • 1 bolli haframjöl – ath. til glútenlaust ef þú vilt án glúteins.
 • 1/3 bolli sólblómafræ
 • 1/3 bolli graskersfræ
 • ¼ bolli gojiber
 • ¼ bolli þurrkaðar apríkósur – smátt saxaðar
 • ¼ bolli þurrkuð bláber – gæti vel verið að hægt sé að nota fersk/frosin ber – þurrka þá vel af þeim og láta þessi frosnu þiðna
 • 2 meðalstórir og vel þroskaðir bananar – stappaðir*
 • ½ tsk vanilludropar
 • 1-2 tsk kanill – fer eftir smekk – ég elska kanil!
 • ½ tsk sjávarsalt

*Ath. ef þér finnst deigið vera of þurrt þá skaltu bæta við smá banana eftir þörfum.  Þú vilt heldur ekki hafa deigið of blautt.

Aðferð:

 • Ofninn er hitaður í 180 gr.
 • Chiafræjunum og vatninu er blandað saman og sett í skál til hliðar í 5 mínútur eða þar til chiafræin hafa dregið í sig vatnið.
 • Gott er að nota 20×20 bökunarform og klæða það með bökunarpappír. Auðveldara að taka stykkin upp og skera eftir að búið er að baka ef þú notar bökunarpappír.
 • Þurrefnunum er blandað saman í skál.
 • Bananarnir eru stappaðir saman og vanilludropunum bætt útí.
 • Þá er chiafræjunum bætt út í bananana.
 • Því næst er öllu blandað saman og hrært vel saman.
 • Blöndunni er hellt ofan í bökunarformið og slétt vel úr og þjappað niður.
 • Bakað í um 25-35 mínútur eða þar til orðið gullið að lit.

Látið kólna áður en skorið er niður í hæfilega bita.

Hægt að geyma í ísskáp vafið í plastfilmu í 3-4 daga og einnig er hægt að frysta bitana og taka þá út t.d. að morgni og hafa sem millimál seinna um morguninn/daginn.

Njótið!

Með heilsukveðju frá Rotterdam,
Ásthildur Björns

Leave a Reply