Betri kjúklingabitar

Betri kjúklingabitar merkt MMM

“Betri en KFC-kjúklingabitar” var það sem yngri dóttirin sagði þegar hún smakkaði þessa og fyrir mig er það ansi mikið og stórt hrós þar sem hún er mjööög oft hrifin af öðrum mat en þeim sem hún fær heima hjá sér ;)  Ég gerði tvöfalt magn af þessari uppskrift með það í huga að hafa afgang fyrir dæturnar til að taka með í nestið.  Daginn eftir var þetta mjög gott þrátt fyrir að þær borðuðu þetta þá kalt.

 
Innihald:

 • 4 kjúklingabringur (einnig hægt að nota kjúklingalundir þar sem bringurnar eru hvort sem er skornar í ræmur).
 • 2 – 3 egg (byrjaðu á tveimur eggjum, gætir þurft að bæta við)
 • 1 bolli möndlumjöl (gæti þurft aðeins meira)
 • 1 tsk sjávarsalt*
 • 1.5 msk paprikukrydd*
 • ½ tsk kóríanderkrydd*
 • ½ tsk cuminkrydd*

 
Aðferð:

 1. Byrjaðu á því að setja bökunarpappír ofan á bökunarplötu.
 2. Skerðu bringurnar í meðalstóra strimla.
 3. Blandaðu saman möndlumjölinu og kryddunum á disk. Þú gætir þurft að bæta við möndlumjöli og kryddum – en það fer eftir því hversu mikið þú notar á hvern og einn bita.
 4. Hrærðu eggjunum saman og settu þau ofan í t.d. grunnan súpudisk.
 5. Þerraðu kjúklinginn og dýfðu bitunum ofan í eggjahræruna þannig að það þekji allan kjúklinginn.
 6. Þvínæst leggurðu kjúklinginn ofan í möndlumjölsblönduna og veltir honum uppúr blöndunni svo að hann sé vel hjúpaður.
 7. Kjúklingastrimlunum er svo raðað á bökunarpappírinn.
 8. Bakað í 180 gráðu heitum ofni í um 18-25 mín (fer eftir hversu þunnir/þykkir strimlarnir eru).

Borið fram með fersku salati og jafnvel heimagerðum bökuðum frönskum kartöflum.
 
Njótið!

Með heilsukveðju frá Rotterdam,
Ásthildur Björns

 

 

Leave a Reply