Orkukex með súkkulaði

Orkukex með súkkulaði

Jæja ég er komin aftur!

Þessi litla síða mín, mitt litla baby, hefur þurft að þola það að sitja í skugganum af mastersnámi mínu þennan vetur ásamt því að ég hef verið að sinna öllu duglega fólkinu mínu í heilsumarkþjálfuninni.  Nú verður því breyting á þar sem ég er komin í sumarfrí frá náminu og get þá loksins einbeitt mér aftur að tilraunastarfseminni í eldhúsinu – gaman gaman!  Er einmitt búin að vera að prófa og búa til ýmislegt nýtt sem mun birtast hér á síðunni á næstunni.

Meðal annars gerði ég þetta dásamlega kex sem flokkast nú eiginlega sem hráfæðiskex (raw) þar sem það var “bakað” við lágan hita í tryllitækinu – þurrkofninum mínum.  En kexið er einnig hægt að baka í venjulegum ofni með því að stilla á lægstu stillingu (hafa jafnvel smá rifu opna) og baka í 1-3 klst.

Deigið er frekar laust í sér áður en það er bakað en með bakstrinum tekur það sig og helst þar með saman.

Vegan – Glútenlaust

Innihald – kexið:

 • ½ bolli óristað bókhveiti (kallað buckwheat groats – sjá myndir hér að neðan)
 • ½ bolli pekanhnetur
 • 1 bolli – döðlur (sem hafa verið steinhreinsaðar og smátt saxaðar). Ef döðlurnar eru mjög þurrar þá getur verið gott að setja þær í bleyti í heitu vatni í ca. 15 mín.  Geymdu svo vatnið ef deigið verður of þurrt.
 • Skraut ofan á kexið: t.d. smátt saxaðar valhnetur, pekanhnetur eða möndlur.

Súkkulaðið:

 • 3 msk kókosolía
 • 3 msk carob duft – einnig hægt að nota venjulegt kakóduft
 • 3 msk hlynsýróp – einnig hægt að nota hunang en betra ef fljótandi

Aðferð – kexið:

 1. Helltu heitu vatni yfir döðlurnar þannig að það fljóti yfir og láttu liggja í 15 mín. Geymdu svo hluta af vatninu ef deigið verður of þurrt.
 2. Þá er bókhveitið mulið í blender eða í öflugri matvinnsluvél.
 3. Bættu svo pekanhnetunum við.
 4. Þá er döðlunum bætt við.
 5. Blandað saman þar til deigið fer að klístrast saman.  Ef þér finnst deigið vera of þurrt þá gætirðu bætt við smá af vatninu sem döðlurnar voru í.
 6. Á þessu stigi gætirðu geymt deigið inni í kæli t.d. yfir nótt eða farið beint í að baka það.
 7. Mótaðu deigið í litlar kexkökur með höndunum og raðaðu á bökunarpappír – fínt að miða við að þykktin sé rétt um 0,5 cm.  Ath. á þessu stigi er deigið frekar laust í sér – en engar áhyggjur því að eftir baksturinn tollir það betur saman.
 8. Bakstur – það eru tvær leiðir til að baka kexið:
  • Þurrkofn: Kexinu er raðað á bökunar”pappírinn” sem fylgir með þurrkofninum og fyrstu klukkustundina er hitinn hafður á 140 – eftir það er hitinn lækkaður niður í 110 og látið bakast í um 4-5 tíma.  Heildarbökunartími er þá 5-6 klst.
  • Venjulegur ofn: Bakað við lægsta hita (getur þurft 1-3 tíma) – fylgstu með því og þegar kexið tollir vel saman þá er það tilbúið.

Aðferð – Súkkulaðið:

 1. Öllu er blandað saman og smurt yfir kexið þegar það hefur kólnað.
 2. Getur svo skreytt kexið með t.d. smátt söxuðum valhnetum eða öðrum hnetum og eins með helium pecanhnetum.

Geymast í kæli í nokkra daga og svo er líka hægt að frysta kexið og þá geymist það auðvitað mikið lengur.

Hér eru myndir af bókhveitinu – ég notaðist við buckwheat groats frá Bob´s Red Mill

Bókhveiti - groats

 

 

bobs-red-mill-buckwheat

 

 

 

 

 

 

 

Gangi þér vel!

Með heilsukveðju frá Rotterdam,
Ásthildur Björns

Leave a Reply