Veganborgarar

Veganborgarar MMM

Þessa veganborgara er ég búin að gera ansi oft þetta sumarið og bestu meðmælin voru frá unglingnum mínum og kjötætunni miklu sem sagði þá vera betri en nautahakksborgararnir sem við grilluðum eitt skiptið í sumar.  Þessir eru líka æði í nestið og því upplagt að gera ríflegan skammt og eiga borgarana tilbúna í frystinum.  Þá er líka ekkert mál að taka út og hita aðeins upp.

Vegan – Glútenlaust – Sykurlaust

Innihald:

 • 1 rautt chilli, smáttsaxað
 • 3 hvítlauksgeirar
 • 2 dósir svartar baunir, skolaðar og vatnið látið renna af þeim
 • ½ meðalstór rauð paprika – skorinn í strimla
 • ½ meðalstór gul eða appelsínugul paprika  – skorinn í strimla
 • ¼ bolli rauðlaukur, skorinn í strimla
 • 1 lítil dós maískorn
 • 1 lítil dós tómatpúrra
 • ½ – 1 bolli tröllahafrar (fæst einnig glútenlaust) – magn fer eftir því hversu deigið er blautt
 • 1 tsk cumin
 • 1 tsk hvítlauksduft
 • ½-1 tsk salt eftir smekk
 • 1/2 – 1 tsk nýmalaður svartur pipar eftir smekk
 • Ólífuolía (ofan á bakaða grænmetið)

Aðferð:

 1. Ofninn er hitaður 180°C – setjið bökunarpappír á eina ofnplötu.Skerið laukinn og paprikuna í meðalbreiða strimla og dreifið á bökunarplötuna. Bætið við helmingnum af maískornunum.  Skvettið smá ólífuolíu yfir grænmetið.  Kryddið með salti, pipar og hvítlauksdufti.  Blandið öllu vel saman.  Bakið grænmetið í 35-40 mínútur eða þar til það er orðið mjúkt og farið að taka lit.
 2. Blandið saman rauðu chilli og hvítlauk í matvinnsluvél. Bætið því næst 1 dós af svörtum baunum og blandið vel saman.  Þá er ofnristaða grænmetinu blandað saman við baunirnar þar til áferðin er orðin kássuleg
 3. Setjið blönduna í stóra skál og bætið við 1 bolla af svörtum baunum, tómatpúrrunni og afganginum af maískorninu og kryddið með cumin og jafnvel með smá salti og pipar. Á þessu stigi er um að gera að smakka blönduna og bæta þá við salti, pipar eða jafnvel hvítlauksdufti ef þar. Hrærið saman með sleif.  Nú ætti deigið að vera frekar blautt.  Til að gera það viðráðanlegra bættið þá við tröllahöfrum þar til hægt er að móta deigið..
 4. Hitið smá ólífuolíu á pönnu við meðalhita. Formið litla klatta með matskeið og hér þurfið þið að nota hendurnar til að móta borgarana.  Skellt á heita pönnuna og steiktir í 3-4 mín á hvorri hlið.  Þeir eru frekar lausir í sér á þessu stigi þannig að gott er að nota spaða þegar þeim er snúið við.
 5. Raðið borgurunum á bökunarpappír sem settur hefur verið á ofnplötu.
 6. Borgararnir eru þá hitaðir í ofni í ca 10-15 mín við 180°C til að þeir haldist betur saman.
 7. Borið fram með t.d. fullt af grænmeti (avokadó, tómötum, agúrkum og salati), heimagerðri kashewsósu og súrdeigsbrauði.

Ef það er afgangur þá eru borgararnir mjög góðir kaldir daginn og eru þeir því upplagðir í nestið.

Einnig er hægt að frysta þá og því flott að gera slatta og eiga til að grípa í þegar lítill tími er til að græja matinn.

Njótið!

Með heilsukveðju frá Rotterdam,

Ásthildur Björns

Bakaðgrænmeti veganborgarar

Sætar hollustukúlur með gulrótum

Sætar hollustukúlur með gulrótum & rúsínum mmm

Nú fer senn að líða að hausti og skemmtileg árstíð að hefjast þegar skólarnir byrja aftur.  Einnig er oft talsvert mikið af nýuppteknum gulrótum sem ganga kaupum og sölum og því er hér hugmynd að stórkostlega einföldu og bragðgóðu millimáli sem inniheldur gulrætur!  Kúlurnar er dásamlega gott að eiga til í frystinum og lauma jafnvel nokkrum í nestisboxið.

#glútenlaust #eggjalaust #mjólkurlaust #vegan

Innihald:

 • 1 bolli gróft haframjöl t.d Tröllahafrar (hægt er að fá glútenlaust haframjöl)
 • 1/2 bolli rifnar gulrætur
 • 1/4 bolli rúsínur
 • 1/4 bolli gróft skornar möndlur
 • 1/2 – 1 tsk kanill (ég er kanilfíkill og nota því yfirleitt mjööög mikið af þessu dýrðarkryddi!)
 • 1/8 tsk negull
 • 1/8 tsk múskat
 • 1/3 bolli möndlusmjör
 • 1/4 bolli hlynsýróp eða lífrænt hunang (ef þú notar hunangið þá er þetta ekki vegan).

Aðferð:

 1. Möndlusmjöri og hlynsýróp eða lífræna hunanginu er hrært vel saman í lítilli skál.
 2. Haframjöli, rifnum gulrótum, rúsínum, möndlum og kanil blandað saman í meðalstórri skál.
 3. Möndlusmjörsblöndunni er þá bætt við.
 4. Sett í ísskáp í 1 klst.
 5. Blandan mótuð í litlar kúlur með teskeið.
 6. Geymist í frysti.

Með hollustukveðju frá Rotterdam,
Ásthildur Björns

 

 

Gulrótar- og eplamuffins

Gulrótar og eplamuffins - mmm

Mig langaði í muffins!  Gerði því þessi þar sem ég átti hrúgu af gulrótum sem jú endast nú ekki endalaust.  Þessi eru mjög góð og ef geymt í kæli þá eru þau einnig ljúffeng daginn eftir.  En ég fékk mér einmitt eitt slíkt í morgunmat einn daginn.

Glútenlaust!

12 muffins – ef þú notar venjulega stærð af formum.

Innihald:

 • 3/4 bolli möndlumjöl
 • 3/4 bolli kókoshveiti
 • 1/4 bolli haframjöl – fín (hægt að setja t.d. í blender/matvinnsluvél)
 • 2 msk hörfræ – mulin
 • 1 tsk vínsteinslyftiduft
 • 1 tsk matarsódi
 • 1-2 tsk kanill
 • 1/2 bolli lífrænt hunang
 • 1 bolli rifnar gulrætur
 • 1 stórt epli, afhýtt, kjarnhreinsað og rifið niður
 • 1 lítil krukka eplamauk (ég notaði lífrænt mauk ætlað ungabörnum).
 • 1 stórt lífrænt egg (eða 2 lítil lífræn egg)


Aðferð:

 1. Hitaðu ofninn í 190 gráður
 2. Blandaðu saman í lítilli skál öllum þurrefnunum og leggðu til hliðar
 3. Í annarri skál blandaðu saman egginu/eggjunum, eplamaukinu, hunanginu ásamt rifnu gulrótunum og eplinu.
 4. Blandaðu saman þurru og blautu hráefnunum með sleif.
 5. Ef þér finnst deigið of blautt þá geturðu alveg bætt aðeins af haframjöli við.  Eins ef þér finnst deigið vera of þurrt þá geturðu bætt við einu eggi.  (Kókoshveitið dregur svo svakalega í sig vökva að stundum getur deig orðið of þurrt þess vegna).
 6. Fínt að nota skeið til að setja í formin.
 7. Bakað í u.þ.b. 15-20 mín eða þar til ekkert kemur á tannstöngul sem stungið er ofan í.
 8. Gott að geyma svo í kæli.  Haldast mjúk og góð.

Gangi þér vel!

Með heilsukveðjur frá Rotterdam,
Ásthildur Björns

Orkukex með súkkulaði

Orkukex með súkkulaði

Jæja ég er komin aftur!

Þessi litla síða mín, mitt litla baby, hefur þurft að þola það að sitja í skugganum af mastersnámi mínu þennan vetur ásamt því að ég hef verið að sinna öllu duglega fólkinu mínu í heilsumarkþjálfuninni.  Nú verður því breyting á þar sem ég er komin í sumarfrí frá náminu og get þá loksins einbeitt mér aftur að tilraunastarfseminni í eldhúsinu – gaman gaman!  Er einmitt búin að vera að prófa og búa til ýmislegt nýtt sem mun birtast hér á síðunni á næstunni.

Meðal annars gerði ég þetta dásamlega kex sem flokkast nú eiginlega sem hráfæðiskex (raw) þar sem það var “bakað” við lágan hita í tryllitækinu – þurrkofninum mínum.  En kexið er einnig hægt að baka í venjulegum ofni með því að stilla á lægstu stillingu (hafa jafnvel smá rifu opna) og baka í 1-3 klst.

Deigið er frekar laust í sér áður en það er bakað en með bakstrinum tekur það sig og helst þar með saman.

Vegan – Glútenlaust

Innihald – kexið:

 • ½ bolli óristað bókhveiti (kallað buckwheat groats – sjá myndir hér að neðan)
 • ½ bolli pekanhnetur
 • 1 bolli – döðlur (sem hafa verið steinhreinsaðar og smátt saxaðar). Ef döðlurnar eru mjög þurrar þá getur verið gott að setja þær í bleyti í heitu vatni í ca. 15 mín.  Geymdu svo vatnið ef deigið verður of þurrt.
 • Skraut ofan á kexið: t.d. smátt saxaðar valhnetur, pekanhnetur eða möndlur.

Súkkulaðið:

 • 3 msk kókosolía
 • 3 msk carob duft – einnig hægt að nota venjulegt kakóduft
 • 3 msk hlynsýróp – einnig hægt að nota hunang en betra ef fljótandi

Aðferð – kexið:

 1. Helltu heitu vatni yfir döðlurnar þannig að það fljóti yfir og láttu liggja í 15 mín. Geymdu svo hluta af vatninu ef deigið verður of þurrt.
 2. Þá er bókhveitið mulið í blender eða í öflugri matvinnsluvél.
 3. Bættu svo pekanhnetunum við.
 4. Þá er döðlunum bætt við.
 5. Blandað saman þar til deigið fer að klístrast saman.  Ef þér finnst deigið vera of þurrt þá gætirðu bætt við smá af vatninu sem döðlurnar voru í.
 6. Á þessu stigi gætirðu geymt deigið inni í kæli t.d. yfir nótt eða farið beint í að baka það.
 7. Mótaðu deigið í litlar kexkökur með höndunum og raðaðu á bökunarpappír – fínt að miða við að þykktin sé rétt um 0,5 cm.  Ath. á þessu stigi er deigið frekar laust í sér – en engar áhyggjur því að eftir baksturinn tollir það betur saman.
 8. Bakstur – það eru tvær leiðir til að baka kexið:
  • Þurrkofn: Kexinu er raðað á bökunar”pappírinn” sem fylgir með þurrkofninum og fyrstu klukkustundina er hitinn hafður á 140 – eftir það er hitinn lækkaður niður í 110 og látið bakast í um 4-5 tíma.  Heildarbökunartími er þá 5-6 klst.
  • Venjulegur ofn: Bakað við lægsta hita (getur þurft 1-3 tíma) – fylgstu með því og þegar kexið tollir vel saman þá er það tilbúið.

Aðferð – Súkkulaðið:

 1. Öllu er blandað saman og smurt yfir kexið þegar það hefur kólnað.
 2. Getur svo skreytt kexið með t.d. smátt söxuðum valhnetum eða öðrum hnetum og eins með helium pecanhnetum.

Geymast í kæli í nokkra daga og svo er líka hægt að frysta kexið og þá geymist það auðvitað mikið lengur.

Hér eru myndir af bókhveitinu – ég notaðist við buckwheat groats frá Bob´s Red Mill

Bókhveiti - groats

 

 

bobs-red-mill-buckwheat

 

 

 

 

 

 

 

Gangi þér vel!

Með heilsukveðju frá Rotterdam,
Ásthildur Björns

Einfaldasta kex í heimi!

IMG_4489

Þetta er að það einfaldasta kex sem ég hef gert – og hef ég gert þau mörg.  Smá stund í bleyti og svo í ofninn og þú ert komin með þetta fína hollustukex.

Glútenlaust – Sykurlaust – Gerlaust – Engar dýrarafurðir = VEGAN

Ath. Uppskriftin fyllir eina ofnplötu.

Innihald:

 • 125 gr hörfræ
 • 25 gr sesamfræ
 • 50 gr graskers- og/eða sólblómafræ
 • 1 tsk sjávarsalt
 • 1/2 tsk hvítlauksduft – ef vill – alveg hægt að sleppa.
 • 180 ml vatn

Aðferð:

 1. Allt sett í skál (fræjunum, saltinu, duftinu og vatninu) og hrært vel saman – látið standa á eldhúsborðinu í að minnsta kosti 30 mín.
 2. Ofninn hitaður í 180
 3. Bökunarpappír settur á ofnplötu.
 4. Fræblöndunni hellt ofan á pappírinn og hér er fínt að nota sleikju eða sleif og dreifa vel úr þannig að hvergi séu eyður á milli og lagið sé jafnt alls staðar á plötunni.
 5. Hér geturðu skorið með pizzaskerara eða hníf rákir í blönduna þannig að það verði auðveldara að brjóta kexið niður í hæfilega stærð þegar búið er að baka það.
 6. Bakað í ofni í um 25 mín.
 7. Tekið út og látið kólna í smástund áður en þið brjótið það niður.
 8. Tilbúið!

Þetta kex er æði með heimagerðum hummus eða með vel þroskuðu avokadó.
Geymist í lokuðu íláti á eldhúsborðinu í 2-3 daga ef það verður þá ekki búið þá ;)

Njóttu!

Með heilsukveðju frá Rotterdam,
Ásthildur Björns

Einfalda kúskussalatið

Einfalda kúskussalatið MMMDásamlega gott og frískandi kúskussalat sem bæði er hægt að vera með sem aðalrétt og eins sem meðlæti.

Fyrir 1-2

Innihald:

 • 100 gr. kúskus
 • 130 ml heitt grænmetissoð (vatn og kraftur)
 • 2 tómatar – smáttsaxaðir
 • 1 lítil dós maísbaunir
 • 5 cm agúrkubiti
 • 1 lítill rauðlaukur – smáttsaxaður
 • 6 þurrkaðar apríkósur – smáttsaxaðar
 • 2 msk ólífuolía
 • 2-3 msk sítrónusafi
 • 2-3 msk fersk söxuð steinselja
 • 2-3 msk furuhnetur, sólblóma- og/eða graskersfræ (mjög gott að léttrista fræin á þurri pönnu)
 • Kryddað með svörtum pipar & sjávarsalti eftir smekk


Aðferð:

 1. Kúskus er sett í skál og heitu grænmetissoðinu hellt yfir og látið standa í um 10 mínútur. Lokið skálinni t.d. með álpappír svo að hitinn haldist í skálinni.
 2. Á meðan kúskusið dregur í sig vökvann þá blandarðu öllu vel saman í annarri skál.
 3. Kúskusinu er svo blandað saman við grænmetisblönduna þegar það hefur dregið í sig allt soðið.
 4. Skreytt með steinselju.

Njótið!

Með heilsukveðju frá Rotterdam,
Ásthildur Björns

Græni-græni smoothie

7. Græni-græni nr.7 PSD MMMFerskur og grænn!

Ég elska smoothie og finnst það alltaf jafn gott og þægilegt að byrja daginn á einum slíkum (eftir að hafa drukkið sítrónute-ið!).  Hér er ein hugmynd að “einum grænum.”  P.s. hér í Rotterdam er grænkálið loksins fáanlegt í búðunum og það lá við að mín stykki hæð sína af fögnuði þegar fyrsti pokinn sást í búðinni!

(Skammtur fyrir einn)

Innihald:

 • 1 ½ bolli grænkál (eða spínat)
 • 1 bolli kókosvatn (einnig hægt að nota kranavatn)
 • ½ agúrka (eða ½ bolli) – flysjuð
 • 1 grænt epli – flysjað og kjarnhreinsað
 • ½ bolli ananas eða mangó
 • ½ avokadó (þessi litlu í græna netinu)
 • ca 1-2 cm engiferrót (magn fer eftir smekk)

 
Aðferð:

 1. Byrjaðu á að segja grænkálið og vatnið í blender og blandaðu vel saman.
 2. Síðan seturðu allt hitt og blandar vel saman.

Njótið!

Bestu heilsukveðjur frá Rotterdam,
Ásthildur Björns

Hrísgrjónanúðluvefjur með hnetusmjörssósu

Hrísgrjonanúðluvefjur MMM

Nú í lok ágúst gaf ég út Nestispakkann sem fengið hefur frábærar undirtektir og þessi uppskrift er einmitt úr þessu nýja hefti sem inniheldur rúmlega 40 uppskriftir ásamt myndum.

Þessar vefjur eru dásamlega ferskar og einfaldar í gerð. Hér er einmitt um að gera og nýta það sem þú átt t.d. í afgang af kjúkling eða öðru kjöti.  Eins er málið með þessar vefjur að nota hugmyndaflugið þegar kemur að innihaldinu.  Eins og kemur hér fram að neðan að þá finnst mér þær langbestar daginn eftir þegar þær hafa svona náð að “taka sig” – þegar bragðið hefur blandast saman.

Innihald – sósan:

 • 2 meðalstórir hvítlauksgeirar – pressaðir
 • 1 msk rifið engifer
 • 2 msk tamarisósa (getur einnig notað venjulega sojasósu)
 • 2 msk hlynsýróp (maple syrop)
 • 2 msk lime safi
 • Chili duft eftir smekk – kryddaðu lítið í einu – alltaf betra að bæta við heldur en að gera of mikið í byrjun.
 • 1/3 bolli gróft hnetusmjör
 • 1/3 bolli vatn (gætir þurft minna/meira)

 
Innihald – vefjurnar:

 • 1 bolli eldaðar hrísgrjónanúðlur (t.d. vermicelli)
 • 5-8 hrísgrjónavefjublöð
 • 1 væn gulrót – flysjuð og skorin í fína strimla
 • 1 avokadó – skorið í þunnar sneiðar
 • 10 cm agúrkubiti – skorinn í þunna strimla
 • 1 lítil rauð paprika – skorin í strimla
 • 1 bolli ferskt basil (líka hægt að nota steinselju)
 • ½ bolli kóríander – ef vill
 • Grænt salat eftir smekk (t.d. grænkál, rucolla, spínat o.s.frv.)


Aðferð – sósa:

 1. Blandið öllu saman í blender og hellið í skál – setjið til hliðar.


Aðferð – vefjurnar:

 1. Dýfðu einni vefju í einu ofan í skál fulla af vatni svo hún verði meðfærilegri – ef of þurr þá brotnar hún.
 2. Taktu hana strax uppúr og settu á skurðarbretti.
 3. Því næst raðarðu grænmetinu og núðlunum í vefjuna og setur smávegis af hnetusósunni yfir áður en þú rúllar vefjunni upp.

P.s. hér er hægt að sjá góðar leiðbeiningar hvernig gott er að rúlla upp vefjunum:

https://www.youtube.com/watch?v=IfI1wMeDXhg

ATH!

Mér finnst vefjurnar betri þegar þær hafa náð að taka sig og því er frábært að gera þær t.d. kvöldinu áður og bera þær þá fram með fersku grænmeti og afganginum af hnetusósunni.

Njótið!

Bestu heilsukveðjur frá Rotterdam,
Ásthildur Björns

Grískur Bláberjasmoothie

Grískur bláberjasmoothie mmm
Þar sem senn líður að berjatínslu á Íslandi þá er þessi smoothie viðeigandi en í hann er bæði hægt að nota fersk eða frosin bláber.  Íslensk villt bláber eru klárlega þau braðgbestu sem ég hef smakkað og mikið ofsalega sakna ég þeirra.  Hér í Hollandi hef ég ekki rekist á bragðmikil ber og verð því að láta duga hálfbragðlaus og ofurstór bláber – hvort sem það eru fersk eða frosin.  Núna á næstunni er því málið að skella sér í berjamó og tína birgðir fyrir veturinn.  Já og með því slærðu fleiri en tvær flugur í einu höggi – færð útiveruna ásamt hreyfingunni og dásamlega góð bláber.

Innihald:

 • 1/2 bolli fersk eða frosin bláber
 • 1 bolli möndlumjólk (eða önnur mjólk) – Einfalt að gera sína eigin möndlumjólk – sjá hér.
 • 2 tsk grísk jógúrt
 • 1 tsk lífrænt hunang
 • 1 tsk mulin hörfræ

Aðferð:

 1. Allt sett í blender og blandað vel saman.

Njótið!

Bestu heilsukveðjur frá Rotterdam,

Ásthildur Björns

Einfaldar pönnsur

Einfaldar pönnsur psd MMM

Stundum eru dagarnir bara þannig að yfir mann kemur pönnukökuandinn.  Það hefur einmitt verið að gerast á mínu heimili undanfarið og hafa þá þessar verið gerðar þar sem þær eru svo fljótlegar, einfaldar og vegna þess hversu fá innihaldsefni þær innihalda.

Innihald:

 • 1 stk plantain – hefur einnig verið kallað bökunarbananar á íslensku (líta út eins og risavaxinn banani nema að hýðið er ennþá þykkra heldur en á venjulegum banana).  Ef þú finnur ekki plantain þá er hægt að redda sér með venjulegum banönum og þá er gott að hafa þá 2 meðalstóra eða 3 litla.
 • 3 meðalstór egg
 • ½ tsk matarsódi
 • 1 msk kókosolía
 • 1-2 tsk kanill
 • Kókosolía til steikingar

 
Aðferð:

 1. Allt sett í blender og blandað vel saman.
 2. Smávegis af kókosolíu hituð á pönnu rétt undir meðalhita.
 3. Hér er gott að nota t.d. stóra skeið, litla ausu til að skammta deigið á heita pönnuna þannig að pönnukökurnar séu allar af svipaðri stærð.
 4. Settu frekar færri pönnsur á pönnuna heldur en of margar svo að þær klessist síður.
 5. Þegar það byrja að koma smá “búbblur” (loftbólur) í deigið að þá er tími til að snúa pönnsunum við. Ýttu þá einnig varlega niður á pönnsuna með spaða til að þær fletijist aðeins meir út.
 6. Ágæt að kíkja annað slagið undir pönnsuna og þegar hún hefur náð gullna litnum þá er hún tilbúin.
 7. Gerðu alveg ráð fyrir að fyrstu pönnsurnar séu tilraunapönnsur á meðan þú finnur rétta hitastigið – fyrst þegar ég gerði þær voru þær frekar í dekkri kantinum þar sem ég hafði hitann of háan (var með á 7 af 10) en ég næ þeim fínum þegar ég stilli á rétt undir meðalhita (koma vel út á hitanum 4 af 10).

Svo er um að gera að bera pönnsurnar fram með ferskum niðurskornum ávöxtum, mórberjum, kókosflögum, jafnvel smá hlynsýrópi og grískri jógúrtsósu.

Bleika sósan á myndinni er ofureinföld: smá grískt jógúrt blandað með smávegis af frosnum hindberjum og örlitlu hlynsýrópi.

Gangi þér vel & njóttu!

Með heilsukveðju frá Rotterdam,
Ásthildur Björns